Fara í efni
Fréttir

Rafölið Mt. Súlur forðast sjávarflóð

Gleði á Hólum. Frá vinstri: Hallgrímur Friðrik Sigurðarson, eigandi 6a Kraftöl, Stefán Páll Þórðarson, bruggari 6a, Eyþór Darri Baldvinsson, bruggari 6a og Bjarni Kristófer Kristjánsson hjá Bjórsetri Íslands.
Akureyrska kraftbryggeríið 6a Kraftöl vann til silfurverðlauna í kosningu gesta á Bjórhátíðinni sem haldin var að Hólum í Hjaltadal á dögunum. Hallgrímur Sigurðarson, eigandi brugghússins, segir Mt. Súlur vera akureyrskasta kraftbjór í heimi, jarðbundið raföl (amber ale) með helling af blóðbergi og karamellu, ögn sætt, en þægilegt öl sem ætti að renna ljúflega í flesta. Mt. Súlur fékk afar góðar viðtökur á hátíðinni á Hólum. Eftirspurnin er þreföld á við framleiðslugetuna. Draumurinn er að stækka og breytingar á lögum fyrir um ári síðan opnuðu ýmsar dyr fyrir lítil brugghús því nú má selja „beint frá býli“ og möguleikar hafa opnast fyrir vefverslun, svo dæmi sé tekið.
 

Silfurverðlaun í kosningu þátttakenda á Bjórhátíðinni á Hólulm. Mynd: Instagram 6a Kraftöl.
Upprisa eftir sjávarflóð
 
Hallgrímur og kona hans, Þóra Hlynsdóttir, eiga R5, ölstofu sem rekin er við Ráðhústorgið á Akureyri. Þóra er reyndar í fullu starfi sem sjúkraþjálfari, en sinnir svo bókhaldinu og fjármálunum „á koddanum“, eins og Hallgrímur orðaði það í samtali við Akureyri.net. Sjálfur kveðst hann skipta sér á milli R5 og brugghússins, vera eins konar húsvörður hjá R5 og svo í hlutastarfi í brugghúsinu. Hann er með tvo með sér í brugghúsinu, en þeir eru einnig í hlutastarfi.
 
Segja má að um upprisu sé að ræða því tæki og húsnæði þessa vel varðveitta leyndarmáls á Akureyri sem tilvist 6a Kraftöls er urðu fyrir barðinu á sjávarflóði sem varð á Eyrinni í fyrrahaust. Uppbyggingarstarf hafði þá verið í gangi hjá upphafsmönnum og fyrri eigendum brugghússins árið á undan og þessi litla bruggverksmiðja loks komist á það stig að geta framleitt vörurnar sínar. 
 
Hallgrímur og Þóra höfðu keypt 6a Kraftöl ekki svo löngu áður en sjávarflóð varð á Oddeyrinni í fyrrahaust, en það setti stórt strik í reikninginn því milljónatjón varð á tækjum vegna salts og skolps, tjón sem Hallgrímur segir að hafi aðeins verið bætt að litlu leyti. Um 90% af öllum tækjum og húsnæði eyðilögðust þegar sjór flæddi á land og inn í hús á Eyrinni.
 
Hallgrímur og Þóra hafa því lagt í töluverðar fjárfestingar til að byggja fyrirtækið upp á nýjum stað. Segja má að þau hafi farið svipað að og Nói forðum, þó ekki með því að byggja örk heldur færðu þau sig ofar til að forðast að lenda aftur í flóði eins og í september í fyrra. Bruggverksmiðjan er nú starfrækt í Njarðarnesi 4 og klárt að þar verða að minnsta kosti ekki sjávarflóð. 
 

Fölölið er á krananum á R5.
Fölöl og raföl
 

„Nú er allt komið á fullt aftur í nýju sérhæfðu húsnæði þar sem hamfaraflóðin ná okkur ekki og á nýyfirstaðinni bjórhátíð Bjórseturs Íslands á Hólum hrepptum við annað sætið í kosningu gesta, sem var afar kærkomið eftir allt sem á undan er gengið, með M.t. Súlur, jarðbundið, ögn sætt og blóðbergskryddað raföl (Amber ale), þægilegt öl sem ætti að renna ljúflega í flesta,“ segir Hallgrímur um ævintýrið á Hólum í Hjaltadal.


Amber Ale verður í snjallri þýðingu að raföli.

Fram undan er enn frekari uppbygging í verulega bættri aðstöðu hjá 6a Kraftöli, bjórhátíð LYST í Lystigarðinum 22. júlí, kranayfirtaka á R5 með nýjasta sumaröl brugghússins, R5 special, sem lýst er sem þægilegu indversku fölöli (IPA), stútfullu af sól og björtum tónum. Hallgrímur notar hugtökin fölöl og raföl yfir mismunandi tegundir af framleiðslunni og vísar þar annars vegar til þess sem á enskunni heitir pale ale og hins vegar amber sem gæti útlagst sem glói og hugbreytt yfir í raföl.

Spurður um áhugann á bjórgerðinni nefnir Hallgrímur að hann sé matreiðslumeistari og hafi starfað í eldhúsi í 30 ár. Hann segir bjórgerðina í raun vera eins og bakstur, innihaldsefnin séu að hluta þau sömu. Hreinlæti skiptir að sjálfsögðu máli við bjórgerð eins og aðra matvælavinnslu og segir Hallgrímur reynsluna úr matreiðslunni og þekkingu á hreinlæti koma sér vel við bruggið. 


Kampakátir bruggarar með silfurverðlaunin. Stefán Páll Þórðarson, bruggari 6a, Eyþór Darri Baldvinsson, bruggari 6a, og Hallgrímur Friðrik Sigurðarson eigandi. 

Sex vinir í Laufásgötu 6a

Heitið á fyrirtækinu, 6a Kraftöl, vekur forvitni. Fyrirtækið var stofnað af sex vinum og var starfrækt að Laufásgötu 6a, sem Hallgrímur og Þóra keyptu síðan af stofnendunum í fyrravor. Kraftöl er í raun bara annað orð yfir handverksöl (craft) sem vísar til þess í hve smáum stíl framleiðslan er, ekki í tugþúsundum lítra á mánuði heldur nánast í nanóformi miðað við stóru bruggverksmiðjurnar. Hallgrímur segir 6a Kraftöl vera eina handverksbrugghúsið á Akureyri og Mt. súlur því akureyrskasta bjór í heimi. Framleiðslugetan er aðeins um 1.800 lítrar á mánuði, en miðað við eftirspurn væri hægt að selja þrefalt það magn. Stærð tanksins sem unnið er með takmarkar framleiðslugetuna. Núna er bjórinn bruggaður í 200 lítra tanki, en Hallgrímur segir drauminn vera að stækka og vinna með 5.000 lítra tank. Framleiðslan er hvort tveggja í flöskum og á kútum.