Fara í efni
Fréttir

Rafeyri: Appið veit hvar verkfærin eru

Tvítugur sumarstarfsmaður, Hafsteinn Davíðsson, skrifaði smáforrit (app) fyrir Rafeyri til að auðvelda utanumhald og skipulag í sambandi við öll verkfæri fyrirtækisins, alveg frá snerlunum sem notaðir eru til að snúa saman víra í járnabindingu upp í stórar kerrur.

Hannes Garðarsson, skrifstofu-, öryggis- og gæðastjóri Rafeyrar, segir appið hafa gefist vel, en stóra málið sé að fá menn til að nota það. „Við erum búin að merkja við hvert verkfæri á verkfæralagernum hvað þau heita og setja QR-kóða á þau,“ segir Hannes við Akureyri.net. Starfsmaður sem ætlar að sækja sér verkfæri opnar appið í símanum og skannar QR-kóðann og þá kemur verkfærið upp, mörg þeirra eru þegar komin með mynd inn í appið. Síðan eru skráðar inn upplýsingar, þessi starfsmaður tekur þetta verkfæri og þá geta aðrir einnig séð hvar viðkomandi verkfæri er og hvort það er í notkun eða ekki. Ef það er úti þá sérðu hver er með það,“ segir Hannes og flettir upp á tveggja blaða sög í appinu. „Ég er hérna með mynd af tveggja blaða sög og get séð að Einar er með hana. Ég gæti merkt við skilað ef ég veit að hann hafi verið búinn að skila henni og hafi gleymt að gera það sjálfur. Eða ef ég sé að sögin er ekki þarna þá get ég hringt í hann og spurt hvort og hvenær sögin verði á lausu.“

Með þessu nýtast verkfærin mun betur á milli manna að sögn Hannesar. Menn lúri þá ekki með verkfæri í fleiri daga á meðan aðrir bíða eftir að þau losni, eða viti jafnvel ekki hvar þau eru.

„Síðan er stóra málið, það er auðvelt að útbúa kerfi og flott öpp, en það er að fá mannskapinn til að nota þetta. Það er bara glíma okkar, við erum ekkert með það allt saman alveg 100%. En þeir sem nýta þetta, þeir njóta þess,“ segir Hannes. Mennirnir eru mismunandi og hann segir þetta bara spurningu um hvað menn tileinki sér. Starfsumhverfið sé hins vegar alltaf að verða strangara, jafnvel auknar kröfur með hverjum deginum sem líður.

Var þá mikið um að verið væri að týna verkfærum áður en þetta kom til, eða hvernig kom það til að þið fóruð út í þetta verkefni?

„Það var stór hvati að því að við förum að gera þetta. Vegna þess að það er meiriháttar mál að vera með gott utanumhald,“ segir Hannes. Það sé mikið tap í því þegar vantar verkfæri og enginn veit hvar þau eru. Þau gleymdist bara einhvers staðar. „Það hefur jafnvel hefur komið fyrir að verkfæri hafa siglt burt með skipum, það var verið að vinna í skipi og svo er skipið farið úr höfn.“

Er næsta skref að setja staðsetningarbúnað í tækin?

„Já, það hefur verið í umræðunni að setja slíkt í töskur sem eru með einhverja dýra mæla og svoleiðis. Þetta er bara nauðsynlegt fyrir okkur. Kostnaður við verkfærin skiptir máli, en mestu skiptir að við séum með rétt verkfæri tiltæk þegar á þarf að halda, rétt eins og að vera með rétta menn tiltæka.“

Appið var búið til sumarið 2021 og þar var á ferðinni tvítugur sumarstarfsmaður.

„Hafsteinn Davíðsson, drengur rétt um tvítugt, nýútskrifaður úr Menntaskólanum og er líka að læra á trommur, algjör snillingur, hefur verið að spila með lúðrasveitinni og sinfóníuhljómsveitinni, mjög efnilegur drengur á því sviði. Hann er núna að læra á trommur í Hollandi. Hann er mjög glúrinn í tölvumálum og hann skrifaði þetta app þar sem menn voru að tala hér um að þyrfti að gera bragarbót á þessum málum. Hann er sonur Davíðs Hafsteinssonar, sem er hér stjórnarformaður og tæknistjóri. Hann var hér sumarstarfsmaður tvö síðastliðin sumur. Hann raungerir það sem við erum að ræða og gott betur þar sem hann útfærir það líka, þannig að hann er ekki mataður að öllu leyti. Hann finnur út hvað er hægt að gera enn frekar. Hann á heiður skilinn að þessu verkfæraappi og líka mannauðskerfinu okkar. Ég vona að við fáum hann aftur,“ segir Hannes Garðarsson hjá Rafeyri.