Ræddi um dauðaóttann fyrir þingsetningu
Séra Hildur Eir Bolladóttir, prestur í Akureyrarkirkju, gerði dauðaóttann að umtalsefni í prédikun sem hún flutti við messu fyrir setningu Alþingis í gær.
„Mig langar kannski ekki að tala um þetta hér við ykkur spariklædd og spennt fyrir þingvetrinum en ég ætla samt að gera það, vegna þess að ég held að það sé gagnlegt og kirkjan á umfram allt að tala um gagnlega hluti. Kirkjan á að hugga, uppörva, leiða og blessa og tala um gagnlega hluti, líka þegar hana langar frekar að tala um eitthvað létt og skemmtilegt,“ sagði Hildur Eir.
Hún sagði skemmtilega sögu af sjálfri sér, aðra af systur sinni og móður. Sagði dauðaóttann geta verið fyndinn „en í dýpsta kjarna sínum er hann þó allt annað en fyndinn.
Jöfnum kjör fólks
„... við erum öll að fást við þá skelfandi tilhugsun að dag einn munum við ekki eiga neitt og veröldin ekki einu sinni bera þess merki að við höfum verið hérna, eða jú reyndar loftslagið mun bera þess merki en kannski ekkert annað,“ sagði Hildur Eir. „Og það finnst okkur skelfilegt, að við séum ekki hér og þess vegna verða oft viðbrögðin þau að safna dóti og völdum. Og hugsið ykkur, völd sem safnast upp á fárra hendur af dauðaóttanum einum eru völd sem munu aldrei geta gefið líf eða vöxt vegna þess að þau eru ekki völd þjónustunnar heldur völd eignarinnar, völd óttans. Þau lúta lögmálinu „ÉG Á og þess vegna er ég, ÉG Á og þess vegna lifi ég.“ Þetta eru sem sagt völdin sem geta af sér hernað og fátækt já og þynnra ósonlag.“
Hún sagði einnig: „Ást erfist, sorg erfist og ótti erfist. Mannleg tengsl erfast í fegurð sinni, hamingju, en því miður líka í sársauka, tengslin margvíslegu lifa okkur, svo leggjum höfuðáherslu á þau og vinnum svo að því sem samfélag, ráðamenn og allir sem fá völd í hendur að jafna kjör fólks og lifum lífi í fullri andlegri gnægð vegna þess að það er eina vitið. Hættum að lifa í blekkingum um hið hlutlausa rými, því það er í besta falli leti, að við nennum ekki að tala um afhjúpandi en um leið sammannlega hluti og missum því af dýrmætu tækifæri til að ræða það sem getur rofið dauðaóttann. Ég hvet okkur til þess kæri þingheimur, kirkja, samfélag.“
Smellið hér til að lesa predikun séra Hildar Eirar.