Fara í efni
Fréttir

Ráðist var á drenginn við öryggismyndavélar

Upptaka er til af árás á 16 ára pilt á bílastæði við verslunarmiðstöðina Glerártorg á sunnudagskvöldið, því hún átti sér stað beint fyrir framan öryggismyndavélar. Þar af leiðandi liggur ljóst fyrir hvað gerðist en rannsókn málsins telst þó ekki lokið. Ýmiskonar tæknivinna stendur yfir. Margir blandast í málið; tvær bifreiðar voru á staðnum og í þeim um tugur unglinga, sem þurft hefur að yfirheyra og rætt hefur verið við foreldra þeirra.

Lögreglan á Norðurlandi eystra greindi frá því á Facebook síðu sinni á þriðjudag að til rannsóknar væri „meiriháttar líkamsárás, rán og eignaspjöll“. Veist var að 16 ára pilti með hamri og hann sleginn í höfuðið auk þess að bifreið, sem hann var farþegi í, var skemmd. Sex piltar fæddir frá 2003 til 2005 voru handteknir vegna málsins og voru þeir vistaðir í fangahúsi, en sleppt á mánudaginn eftir yfirheyrslur að viðstöddum barnaverndarfulltrúa.