Fréttir
Ráðið í tvær stjórnendastöður SAk
20.07.2023 kl. 11:21
Guðbjartur Ellert Jónsson, nýr fjármálastjóri SAk, og Konráð Gylfason, nýr framkvæmdastjóri rekstrar og klínískrar þjónustu.
Guðbjartur Ellert Jónsson hefur verið ráðinn í stöðu fjármálastjóra Sjúkrahússins á Akureyri og Konráð Gylfason í stöðu framkvæmdastjóra rekstrar og klínískrar þjónustu.
Í frétt Sjúkrahússins er sagt frá því að í framhaldi af innleiðingu nýs stjórnskipulags sem kynnt var í vor hafi stofnunin auglýst stöður framkvæmdastjóra lækninga, framkvæmdastjóra klínískrar þjónustu, framkvæmdastjóra rekstrar og klínískrar stoðþjónustu og stöðu fjármálastjóra. Nú hefur verið gengið frá og tilkynnt um ráðningar í tvær af þessum stöðum.
Guðbjartur Ellert Jónsson er með BSc gráðu í viðskiptafræði og hefur lokið stórum hluta meistaranáms í opinberri stjórnsýslu. Hann hefur meðal annars verið fjármálastjóri hjá sveitarfélaginu Norðurþingi, framkvæmdastjóri Norðursiglingar og Herjólfs. Þá hefur hann einnig reynslu sem verkefnastjóri á hag- og upplýsingasviði Landspítalans, svo eitthvað sé nefnt. Guðbjartur Ellert kemur úr starfi þar sem hann hefur sinnt sérfræðiverkefnum á endurskoðunar- og stjórnsýslusviði Ríkisendurskoðunar.
Konráð Gylfason er með BSc gráðu í viðskiptafræði, MLM-gráðu í forystu og stjórnun með áherslu á mannauðsstjórnun, auk meistararéttinda í blikksmíði og viðbótardiplómu á meistarastigi í kennslufræðum. Konráð var í rúman áratug verið framkvæmdastjóri Formvéla og Blikksmiðju Gylfa og frá árinu 2016 verið framkvæmdastjóri Íshokkísambands Íslands.
Ráðning framkvæmdastjóra klínískrar þjónustu og framkvæmdastjóra lækninga er á lokametrum og ætti að skýrast innan skamms, að því er fram kemur í frétt SAk.