Fara í efni
Fréttir

Ráðherra líst vel á „raunhæfa“ hugmynd

„Ráðherra fagnar hugmyndum af þessu tagi, enda er Akureyri mikill menningarbær og myndi vafalaust standa undir nafngiftinni,“ segir í skriflegu svari frá aðstoðarmanni Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Akureyri.net, sem óskaði eftir viðbrögðum ráðherra við hugmynd formanns og framkvæmdastjóra Menningarfélags Akureyrar (MAk) þess efnis að bærinn verði Menningarhöfuðborg Evrópu. Tveir bæir eða borgir eru valdar árlega.

Þuríður Helga Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri MAk, og Eva Hrund Einarsdóttir, formaður stjórnar, skrifuðu í síðustu viku grein sem hófst á þessum orðum: „Menningarfélag Akureyrar skorar á Akureyrarbæ, Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra og Menntamálaráðuneytið að taka í samstarfi með okkur stóra stökkið og stefna á að Akureyri verði Menningarhöfuðborg Evrópu.“

Í svari aðstoðarmanns fyrir hönd ráðherra segir ennfremur: „Málið hefur þó ekki verið skoðað ofan í kjölinn og ráðherra hefur því ekki mótað sér sterka skoðun á því, en er sannarlega jákvæð og telur hugmyndina raunhæfa. Líklega yrði umsóknarferlið með svipuðum hætti og þegar Reykjavík sótti um og fékk nafnbótina árið 2000, en okkur hefur ekki gefist tími til að kanna verklagið í því öllu saman.“ Tekið er fram að þar sé til dæmis átt við kostnaðarhliðina.

Ótvírætt vald í starfinu

Þuríður og Eva nefndu einnig í greininni að einboðið væri að finna fyrirhugaðri Þjóðaróperu heimili í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Þær sögðu menningarvald Íslands á litlum bletti í Reykjavík og á fárra höndum.

Varðandi „menningarvaldið í 101, þá telur ráðherra mikið og ótvírætt menningarvald liggja í frábæru menningarstarfi og grasrótinni um allt land. Menning er enda ekki stofnun, hús eða póstnúmer.“

„Engar ákvarðanir hafa verið teknar um heimilisfesti Þjóðaróperu, enda ekki komið að stofnun hennar,“ segir að endingu.

Smelltu hér til að lesa grein Þuríðar og Evu.