Fara í efni
Fréttir

Prentmet Oddi hefur keypt Ásprent

Starfsemi hófst á ný í Ásprenti-Stíl í morgun, en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta í byrjun mánaðarins. Prentmet Oddi hefur keypt eignir þrotabúsins.

„Undanfarin ár hafa verið prentfyrirtækjum mjög erfið, fyrirtækjum í greininni hefur fækkað mikið á höfuðborgarsvæðinu en við ætlum okkar að búa til rekstrarhæfa einingu sem getur þjónað Norðurlandi,“ sagði Guðmundur Ragnar Guðmundsson, framkvæmdstjóri Prentmets Odda, við Akureyri.net í morgun.

Starfsmenn voru um 20 þegar félagið fór í þrot en verða eitthvað færri. „Við munum styrkja ákveðinn tækjakost fyrir norðan,“ segir Guðmundur Ragnar. Áhersla verði lögð á alhliða prentþjónustu.

Stafrænt prentun verður efld til muna, að sögn Guðmundar, auk þess sem fyrirtækið mun leggja mikla áherslu á prentun límmiða en hann segir ólíklegt að það verði áfram í skiltagerð.

UPPFÆRT - Á Vef Vikublaðsins kemur fram að búið sé að ráða sex manns í fullt starf og að fulltrúar Prentmets Odda fundi með starfsmönnum á morgun. Þar segir Guðmundur Ragnar að ekki sé búið að taka ákvörðun um offset prentun en blöð eins og Dagskráin og Vikublaðið heyra undir slíka prentun. „Við gerum ráð fyrir því að offsetprentun fari fram í Reykjavík en þó er ekki búið að taka endanlega ákvörðun. Við munum skoða það betur,“ segir Guðmundur á vef Vikublaðsins. „Hér fyrir sunnan erum við með litla stafræna prentvél í límmiðum og munum senda stærri verk norður til prentunar."