Planta trjám – tákn um áframhaldandi vináttu
Torben Hansen, borgarstjóri danska vinabæjarins Randers, sendir íbúum Akureyrar jólakveðju í skemmtilegu myndbandi sem birt var á heimasíðu Akureyrar og sjá má hér að neðan.
Randers hefur í fjöldamörg ár sent Akureyringum jólatré en að þessu sinni var tréð höggvið hér í bæjarlandinu til þess að minnka kolefnissporið, eins og Akureyri.net greindi frá á laugardaginn eftir að ljós voru tendruð á trénu. Smellið hér til að sjá myndir frá viðburðinum.
Torben Hansen greinir frá þessari sameiginlegu ákvörðun bæjanna að hætta að senda stórt jólatré sjóleiðina frá Randers til Akureyrar eins og gert hefur verið um langt árabil. „Nú á tímum loftslagsvár þykir ekki við hæfi að flytja tréð yfir hafið og því var jólatré Akureyringa fundið í bæjarlandinu að þessu sinni. Það er gert til að minnka kolefnissporið og er um leið áminning um að auka sjálfbærni og nýta þau gæði sem við búum að, fremur en að leita þeirra um langan veg,“ segir á vef bæjarins.
Eins og fram kemur í myndbandinu, hafa Randersbúar ákveðið að planta tré í nýjan skóg sem tákn um áframhaldandi vináttu sveitarfélaganna tveggja en vináttusambandi á milli Akureyrar og Randers er meira en hálfrar aldar gamalt. Með sama hætti verður trjám plantað í skógarlund á Akureyri sem tákn um vináttutengslin og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, mun einnig senda myndband til Randers með jólakveðju frá Akureyri.
„Vinabæjarkeðja á milli Akureyrar, Álasunds í Noregi, Lathi í Finnlandi, Randers í Danmörku og Västerås í Svíþjóð var stofnuð árið 1940 en aðild Akureyrar að henni var formlega samþykkt árið 1953. Samstarfið hefur verið stöðugt og mikið og grundvallast á föstum árlegum fundum og mótum en einnig á óformlegri og tímabundnum samskiptum félaga og hópa innan bæjanna,“ segir á vef Akureyrarbæjar.