Fara í efni
Fréttir

Pieta samtökin opna útibú á Akureyri

Píeta samtökin opna útibú á Akureyri í sumar, það fyrsta á landsbyggðinni. Forstöðumaður verður Birgir Örn Steinarsson, sálfræðingur hjá Píeta samtökunum og listamaður. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.

Píeta eru forvarnarsamtök gegn sjálfsvígum og sjálfskaða. Fyrsta Píetahúsið á Íslandi var opnað 2018 við Baldursgötu 7 í Reykjavík, en samtökin starfa eftir hugmyndafræði samnefndra samtaka á Írlandi og bjóða fólki 18 ára og eldri sem glíma við sjálfsvígshugsanir aðstoð frá fagfólki án endurgjalds.

Birgir Örn hefur starfað sem sálfræðingur fyrir Píeta í um þrjú ár. Hann gegndi einnig tímabundið stöðu fagstjóra samtakanna þar til Þórunn Finnsdóttir sálfræðingur tók við í febrúar á þessu ári. Margir kannast örugglega við Birgi sem forsprakka hljómsveitarinnar Maus; Bigga í Maus.

„Birgir er Píetamaður inn að hjarta og á eftir að vinna gott starf fyrir íbúa Norðurlands, það er ég fullviss um,“ segir Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píeta, í tilkynninguni. „Þörfin fyrir þjónustu samtakanna er alls staðar og höfum við mætt mikilli velvild og stuðningi frá Akureyrarbæ í tengslum við undirbúningsvinnuna. Því var ákveðið að opna útibú á Akureyri.“

Starsemi Píeta er rekin alfarið á styrkjum og hefur tekist hefur að tryggja rekstur Píeta á Akureyri í tólf mánuði.

Auk þess að veita fólki með sjálfsvígshugsanir aðstoð bjóða Píeta samtökin einnig þeim hafa misst ástvin eða búa með einstaklingi í sjálfsvígshættu upp á stuðning. Píetasíminn 5522218 er opinn allan sólarhringinn og benda samtökin einnig á Hjálparsíma Rauða Krossins 1717. Í neyðartilvikum skal ávalt hringja í 112.