Páll í fremstu röð - þróaði tímamótaaðferð
Akureyringurinn Páll Ragnar Karlsson, Ph.D. í læknavísindum, var í vikunni útnefndur „rannsóknarmaður ársins“ hjá Dönsku sykursýkiakademíunni, DDA. Akademían veitir árlega tvenn verðlaun þeim sem hafa náð góðum árangri á sviði sykursýkirannsókna og hafa notið stuðnings DDA til rannsóknanna. Viðurkenningunni fylgdu verðlaun, 25.000 danskar krónur, jafnvirði um 500 þúsund íslenskra króna. Morgunblaðið greindi fyrst frá þessu.
Páll var heiðraður fyrir rannsóknir sínar á verkjum sykursjúkra. Hann varð fyrstur í Danmörku til að beita nýrri aðferð við töku og greiningu húðsýna sem geta sagt til um ástand tauga í húðinni. Í umfjöllun Morgunblaðsins í gær sagði að aðferðin geti valdið tímamótum.
Í fréttatilkynningu DDA sagði að sérfræðiþekking Páls skipi honum í fremstu röð vísindamanna sem stunda rannsóknir á þessu sviði í heiminum. DDA bendir á að ekki séu nema sjö ár síðan Páll varði Ph.D.-ritgerð sína og hann sé því á fyrsta áratug sínum sem vísindamaður við rannsóknir.Hann hefur starfað við Dönsku verkjarannsóknamiðstöðina í Árósum frá 2010 og þar gegnir aðferðin sem Páll þróaði veigamiklu hlutverki að sögn DDA.
Páll Ragnar er sonur hjónanna Karls Eskils Pálssonar og Jóhannu Hlínar Ragnarsdóttur. Hann gekk á sínum tíma í Glerárskóla og varð stúdent úr VMA.