Myrkur getur ekki hrakið myrkur frá sér
Töluverður hópur safnaðist saman á Ráðhústorgi síðdegis í dag þar sem haldin var kertavaka tileinkuð íbúum Palestínu.
Svavar Knútur tók lagið, lesin var yfirlýsing og flutt tvö ljóð. Annars vegar las Ragnar Sverrisson, einn skipuleggjenda samkomunnar, hið kunna Slysaskot í Palestínu eftir Kristján frá Djúpalæk, hins vegar var flutt ljóðið Ef ég verð að deyja eftir Refaat al-Areer, skáld og prófessor við háskóla á Gaza sem gjarnan var kallaður rödd Gaza. Fram kom að hann var drepinn í sprengjuárás ísraelska hersins síðasta fimmtudag. Ghasoub Abed las upp ljóðið á ensku og Þórarinn Hjartarson íslenska þýðingu.
Yfirlýsingin sem lesin var upp er svona í heild:
Við höfum safnast saman hér til að sýna samstöðu með Palestínu.
Í dag eru liðin 75 ár frá því að mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna var samþykkt. Í henni er kveðið á um mannréttindi sem öll eiga jafnt tilkall til án tillits til kynþáttar, litarháttar eða trúarbragða. Á þessu afmælisári yfirlýsingarinnar er einblínt á frelsi, jafnrétti og réttlæti fyrir öll.
En við höfum öll séð voðaverkin og stríðsglæpina sem hafa verið framin af Ísraelsríki á Gaza síðustu 60 dagana, og þar á undan í 75 ár.
Á aðeins 60 dögum, hafa 20 þúsund manns verið drepin, meira en 8 þúsund af þeim voru börn. Þúsunda er enn saknað undir húsarústum. Ég bið ykkur að taka augnablik til að gera ykkur í hugarlund hversu margir 20 þúsund eru. Það er öll Akureyri. Á einungis 60 dögum.
Yfir 80% af íbúum Gaza eru á flótta, og flest þeirra munu aldrei geta snúið aftur til heimila sinna. Til viðbótar við þá stöðugu hættu á að vera drepin í stanslausum sprengjuárásum, þá eiga íbúar Gaza nú á hættu að deyja af völdum vatnskorts, hungurs, minniháttar meiðsla eða sjúkdóma.
Heilbrigðiskerfi Gaza er algjörlega í rúst. Ísraelski herinn, með stuðningi frá Bandaríkjunum, hefur endurtekið gert flóttamannabúðir, skóla og spítala að skotmörkum sínum og notað vopn sem eru bönnuð samkvæmt alþjóðalögum. Allt þetta eru stríðsglæpir. Á Gaza er enginn öruggur staður.
Jafnvel þó að sístækkandi hópur fólks um allan heim flykkist út á götur og sýni stuðning sinn, jafnvel þó að hægt sé að finna allar þessar upplýsingar auðveldlega á samfélagsmiðlum, þá skortir á viðbrögð frá stjórnvöldum okkar, og opinber fréttaflutningur málar upp afar einhliða mynd af átökunum.
Sex daga vopnahlé og gíslaskipti voru afar lítið skref í átt að friði, og eftir að því lauk hafa átökin bara versnað.
Við vonumst til að allir gíslar geti snúið öruggir til baka, þeim sem er haldið af Hamas og þeim þúsundum sem haldið er í ísraelskum fangelsum. Það sem fólkið á Gaza þarf er ótímabundið vopnahlé á stundinni, að hjálpargögn berist til þeirra og pólitíska lausn til að enda hernámið og aðskilnaðarstefnuna í Palestínu. Íbúar Gaza og Vesturbakkans eiga rétt á frelsi, jafnrétti og réttlæti líkt og aðrir íbúar þessa heims.
Við höfum safnast saman hér í dag í samstöðu með Palestínu, fyrir frelsi og friði. Fyrir mennsku. Við söfnumst saman hér í dag til að sýna yfirvöldum að okkur er ekki sama.
Við stöndum saman gegn íslamafóbíu, gyðingahatri og gegn hvers konar ofbeldi. Við stöndum saman fyrir friði.
Við krefjumst ótímabundis vopnahlés undir eins. Við krefjumst þess að stjórnvöld bregðist við, að þau slíti öll stjórnmálatengsl og setji viðskiptaþvinganir á Ísrael. Við krefjumst þess að yfirvöld kalli eftir að ísraelsk stjórnvöld verði dregin til ábyrgðar fyrir þá óteljandi stríðsglæpi sem hann hefur framið.
Það er ekki hægt að útrýma hugmyndafræði hryðjuverkamanna með því að valda óhugsandi sársauka og hryllingi.
Eins og Martin Luther King sagði: „Myrkur getur ekki hrakið myrkur frá sér, aðeins ljósið getur það. Hatur getur með sama hætti ekki unnið á hatri, aðeins kærleikur getur það.“
Einbeitum okkur saman að ljósinu fyrir framan okkur og ljósinu innra með okkur. Heiðrum minningu þeirra manna, kvenna og barna sem hafa misst líf sín. Hugsum til þeirra sem hafa misst fjölskyldu sína eða heimili. Til þeirra sem hafa misst skólana sína, lífsviðurværi og drauma um bjarta framtíð. Tökum mínútu í þögn, til að senda ást okkar, bænir, orku og ljós til íbúa Palestínu.