Fara í efni
Fréttir

Öxnadalsheiði lokuð, slæmt veður áfram

Öxnadalsheiði var lokað í kvöld og verður ekki opnuð fyrr en einhvern tíma á morgun, í fyrsta lagi. Færð var farin að þyngjast og bálhvasst er  á heiðinni. Raunar er hvasst á láglendi líka og slæmu veðri áfram spáð á morgun.

Gul veðurviðvörun hefur verið í gildi fyrir Norðurland eystra og appelsínugul fyrir norðvesturland og Vestfirði; veðrið sem sagt enn verra þar. Að sögn veðurfræðings verður varla ferðaveður á morgun norðan- og vestanlands; útlit sé fyrir að illfært verði bæði á Öxnadals- og Holtavörðuheiði og fólk beðið um að fylgjast með hvort þær verði jafnvel lokaðar. Spáð er linnulítilli suðvestan átt með úrkomu fram á sunnudag.