Öxnadalsheiði ekki opnuð í dag
Vegurinn um Öxnadalsheiði er lokaður og verður ekki opnaður í dag. Athugað verður með mokstur í fyrramálið. Hið sama á við um veginn um Ólafsfjarðarmúla og Almenninga, norðan Siglufjarðar. Hættustig er í gildi á báðum stöðum vegna snjóflóðahættu.
Vegagerðin segir að í Eyjafirði sé ekkert ferðaveður; þæfingsfærð, blint og frekar erfið akstursskilyrði.
Vonskuveður verður áfram á Norðurlandi þangað til á morgun.
Eins og fram kom á Akureyri.net í nótt féllu snjóflóð á Öxnadalsheiði seint í gærkvöldi. Í morgun var greint frá því að litlu hefði munað að fólk slasaðist, því flóð kom alveg að bíl sem verið var að moka úr skafli. Hannes Rúnarsson atvinnubílstjóri, sem var þar að aðstoða fólkið, gagnrýnir Vegagerðina harðlega fyrir að bregðast ekki við eftir að hann hringdi og benti á að ekkert vit væri í öðru en loka heiðinni. Lögregla hefði hins vegar brugðist skjótt við og staðið sig frábærlega ásamt björgunarsveitarmönnum.
Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, G. Pétur Matthíasson, segir að brugðist sé við öllum ábendingum en aðstæður metnar hverju sinni. G. Pétur segir vetrarþjónustutíma hafa verið lokið þegar hringt var í gærkvöldi og ekki sé hægt að auka þjónustuna nema til komi aukið fjármagn. HÉR má lesa umfjöllun mbl.is.
HÉR er líka ítarleg umfjöllun á Vísi