Fara í efni
Fréttir

Óttuðust geislavirkni í HA en svo var ekki

Háskólasvæðið á Akureyri. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Torkennilegur hlutur fannst í kjallara Háskólans á Akureyri í fyrradag og eftir að maður sem komst í snertingu við hlutinn veiktist hastarlega fór mikil atburðarás í gang; maðurinn var fluttur á Sjúkrahúsið á Akureyri og settur í einangrun til öryggis, svæðinu í kjallaranum lokað og aðrir starfsmenn sem verið höfðu þar voru skoðaðir gaumgæfilega. Enginn þeirra kenndi sér meins.

Starfsmenn Geislavarna ríkisins komu norður í gærmorgun og rannsökuðu hlutinn, sem er stór geymsluhólkur, en niðurstaða þeirra var að engin geislavirkni mældist eins og óttast var í fyrstu, hvorki í búnaðinum né í kjallara bókasafnsins, þar sem umræddur hlutur var.

Starfsmaðurinn sem veiktist, einn húsvarða skólans, fékk að fara heim af sjúkrahúsinu í gær og sagði við Akureyri.net að sér liði eins og hann hefði unnið við rafsuðu í langan tíma án þess að nota gleraugu. Andlit hans liti út eins og hann hefði orðið fyrir efnabruna, en læknar teldu að um heiftarleg ónæmisviðbrögð væri að ræða.

Að sögn Eyjólfs Guðmundssonar, rektors Háskólans á Akureyri, kannast enginn núverandi starfsmanna skólans við þennan torkennilega hlut. Hann hljóti að hafa legið í kjallara bókasafnsins í að minnsta kosti 20 ár. Hugsanlegt er að hann hafi verið notaður við einhvers konar rannsóknir en það sé ekki vitað. „Ég er jafn spenntur og þú að komast að því hvað þessi hlutur er að gera þarna og til hvers hann hefur verið notaður!“ sagði Eyjólfur þegar blaðamaður Akureyri.net forvitnaðist um málið hjá honum.