Óskar eftir lóðum undir 200 leiguíbúðir
SS Leiguíbúðir ehf óskaði á dögunum eftir lóðum fyrir fjölbýlishús, miðsvæðis á Akureyri, undir 200 leiguíbúðir. Bæjarráð tók erindið fyrir á fimmtudag, gat ekki orðið við erindinu, en samþykkt var að ræða við bréfritara, Sigurð Sigurðsson.
SS Leiguíbúðir er óhagnaðardrifið leigufélag í 100% eigu SS Byggis ehf. Félagið hefur á síðustu 20 árum „komið á fót á annað hundrað leiguíbúðum sem flestar hafa síðar verið seldar áfram til annarra sérhæfðra leigufélaga og eru flestar íbúðirnar enn í leigurekstri. Öllum þessum íbúðum var þó komið á leigumarkað án beinnar aðkomu ríkis og sveitarfélags að því undanskildu að fjármögnun fullbúinna íbúða var sótt til Íbúðalánasjóðs,“ segir í bréfinu til bæjarráðs.
Hagkvæmar íbúðir
Í bréfinu segir: „Hugmyndir félagsins ganga út á að byggja, eiga og reka hagkvæmar leiguíbúðir ætlaðar tekjulægri hópum samfélagsins. Markmið félagsins er að bjóða hagkvæmustu leiguíbúðir sem finnast á almennum markaði. Mikilvægt er að lóðir undir umrædd fjölbýlishús verði miðsvæðis þannig að leigjendur geti ástundað bíllausan lífstíl, kjósi þeir svo. Stefnir félagið að því að byggja vel útbúnar og vistlegar íbúðir með góðu skápaplássi og að þeim fylgi góðar geymslur. Félagið vill gera ráð fyrir sjálfvirku loftskiptikerfi með varmaendurvinnslu í öllum sínum íbúðum. Slík kerfi stuðla að heilbrigðu innilofti fyrir íbúa og lækka rekstrar- og viðhaldskostnað íbúða. Íbúðarbyggingarnar eiga að vera smekklegar en viðhaldslitlar, bæði að innan sem utan. Til þess að ná fram markmiðum félagsins um að bjóða hagkvæmustu leigu á markaði verða lóðirnar að vera miðsvæðis á Akureyri, þær verða að vera hagkvæmar út frá landfræðilegu og jarðfræðilegu sjónarmiði og deiliskipulag þeirra má ekki vera mjög íþyngjandi, t.d. með kröfu um bílakjallara o.s.frv.“