Öryggisástæður töfðu opnun laugarinnar

Fastagestir Sundlaugar Akureyrar komu að lokuðum dyrum í gærmorgun en ekki tókst að opna sundlaugina á tilsettum tíma. Ástæðan var tímabundin mannekla en laugin er aldrei opnuð nema hægt sé að tryggja öryggi gesta, að sögn forstöðumannsins.
„Öryggi er alltaf í forgangi hjá okkur. Ef við getum ekki tryggt það þá opnum við ekki,“ segir Gísli Rúnar Gylfason, forstöðumaður Sundlauga Akureyrar. Hann undirstrikar að seinkun á opnun laugarinnar í gær hafi verið einstakt tilfelli en ekki hluti af víðtækari manneklu, en tveir starfsmenn tilkynntu veikindi og sá þriðji svaf yfir sig. Gísli Rúnar bætir við að sundlaugin hafi verið opnuð um klukkan sjö eða um leið og fullnægjandi mannafla var náð. „Svona getur alltaf gerst og þarna voru einfaldlega ekki nægir starfsmenn á vakt til að tryggja öryggi gesta, og því þurftum við að halda lokuðu þar til við gátum mannað laugina örugglega.“