Fara í efni
Fréttir

Örþrifaráð að kalla fólk inn úr fríum

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Starfsmenn Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) hafa verið kallaðir inn úr sumarleyfum vegna álags á deildum sjúkrahússins. Þetta er örþrifaráð og aðgerð sem stofnunin vill helst forðast, segir Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk

Fjórir liggja á SAk með Covid-19, þar af einn í öndunarvél á gjörgæsludeild. „Mikið álag hefur verið á Sjúkrahúsinu á Akureyri í sumar en eins og fram hefur komið í fréttum hefur útbreiðsla Covid-19 verið vaxandi hér á landi með þeim afleiðingum að álag á bæði bráðamóttöku og legudeildir hefur aukist og innlögnum sjúklinga fjölgað,“ segir Hildigunnur í pistil á vef SAk í morgun.

Mannekla aðalvandinn

„Ofan á þetta bætist við álag vegna fjölda ferðamanna og ýmissa annarra sjúkdóma sem krefjast einangrunar sjúklinga. Allar legudeildir eru yfirfullar þrátt fyrir að dregið hafi verið úr valkvæðri þjónustu. Manneklan er okkar aðalvandi um þessar mundir en undanfarin tvö ár hafa reynst erfið innan heilbrigðiskerfisins og undirmönnun staðreynd hjá nokkrum fagstéttum og förum við ekki varhluta af því. Ekki náðist að manna allar stöður sumarafleysinga, töluvert er um veikindi starfsmanna og álag á starfsfólk því enn meira fyrir vikið. Vegna þessa þarf starfsfólk að hlaupa hraðar á hverri vakt og vinna fjölda stunda umfram vinnuskyldu. Við höfum þurft að grípa til þess örþrifaráðs að kalla starfsmenn inn úr sumarleyfum en það er aðgerð sem við viljum helst forðast þar sem afar mikilvægt er að starfsmenn fari í sumarleyfi og fái tækifæri til þess að hvíla sig og hlaða batteríin. Vegna þessarar erfiðu stöðu hafa heilbrigðisstofnanir á okkar upptökusvæði og Landspítali verið upplýst og verður aukið samráð um innlagnir á sjúkrahúsið.“

Forstjórinn segir ennfremur: „Heilbrigðisráðherra er meðvitaður um stöðuna og deilir áhyggjum af ástandinu og öll vitum við hve mikilvægt er að hlúa að starfsfólkinu svo það njóti sín í starfi og standi undir þeim kröfum sem ætlast er til af þeim. Heilbrigðisráðuneytið hefur óskað eftir tillögum frá stjórnendum heilbrigðisstofnana um það hvernig hægt er að hjálpa starfsfólki að ná aftur þreki sínu og krafti og hvernig best er að vinna að endurheimt þess. Það er von okkar að hægt verði að finna lausnir svo starfsfólk öðlist aftur starfsþrek sitt en það er forsenda góðs árangurs.“

Hildigunnur segir að búast megi við því að reynist áfram erfitt „og munum við í framkvæmdastjórn áfram leita leiða við að leiðrétta stöðuna í samráði við yfirvöld og starfsfólk.“