Fara í efni
Fréttir

Orkan uppfærir búnað og bætir við gassjálfsala

Orkustöðin við Hörgárbraut. Þar hefur verið komið upp gassjálfsala. Mynd: Orkan
Dælubúnaður hefur verið uppfærður á stöð Orkunnar við Mýrarveg og dælum fjölgað. Áður var þar aðeins ein dæla en eru nú tvær og „nýju dælurnar eru auðveldari í notkun en þær sem fyrir voru, og má þar nefna að auðveldara er fyrir viðskiptavini að meðhöndla dælubyssurnar,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.
 
„Í fyrra var Orkustöðinni á Kjarnagötu lokað og því frábært að geta aukið þjónustu til viðskiptavina með því að bæta við dælu á Mýrarvegi með uppfærðum búnaði og þar með auðvelda aðgengið að okkar þjónustu,“ segir Auður Daníelsdóttir, forstjóri Orkunnar.
 
Markmið Orkunnar er að þjónusta viðskiptavini með snjöllum hætti, segir í tilkynningunni, og á stöð fyrirtækisins við Hörgárbraut hefur gassjálfssala verið komið fyrir í horninu hjá hraðhleðslustöðinni.
 
„Við fengum fimm gassjálfsala til landsins síðasta vor og spurðum vini okkar á samfélagsmiðlum hvar þeir vildu fá gassjálfsala. Við fengum sérlega góð viðbrögð frá viðskiptavinum okkar á Norðurlandi og gaman að geta svarað því ákalli með þessari þjónustuviðbót,“ bætir Auður við.