Fara í efni
Fréttir

Opið hús í dag í tilefni 25 ára afmælis Súlna

Hópur frá Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri, á hálendisvakt norðan Vatnajökuls sumarið 2023. Mynd: Súlur
Opið hús verður í dag hjá Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri, í tilefni 25 ára afmælis sveitarinnar. Bækistöðvar Súlna eru við Hjalteyrargötu; margir þekkja vitaskuld bygginguna því þangað leggur fjöldi bæjarbúa leið sína fyrir hver áramót í því skyni að kaupa flugelda af sveitinni.
 
Súlur urðu til við sameiningu þriggja björgunarsveita – Flugbjörgunarsveitarinnar á Akureyri, Hjálparsveitar skáta á Akureyri og Sjóbjörgunarsveitar Slysavarnarfélags Íslands.
 
Afmæli Súlna var 30. október í haust og af því tilefni „bjóðum við almenningi á opið hús þar sem hægt er að kynnast fjölbreyttu starfi okkar og skoða húsakynni,“ segir í tilkynningu á Facebook síðu Súlna. Þar segir ennfremur: „Súlur vilja þakka fyrir stuðninginn öll þessi ár en án ykkar væri ekki hægt að halda uppi jafn öflugu starfi og raun er. Kíkið til okkar í Hjalteyrargötu 12 sunnudaginn 26. janúar milli 14 og 17, heitt á könnunni, kleinur og að sjálfsögðu afmæliskaka.“