Fara í efni
Fréttir

Opið fyrir umferð – hált og snjókoma á slysstað

Mynd af Facebook síðu lögreglunnar

Bílstjóri rútunnar sem lenti í árekstri í Öxnadal laust fyrir hádegi var fluttur á Sjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar en meiðsli hans voru ekki talin alvarleg. Þetta kemur fram á Facebok síðu lögreglunnar.

Slysið varð á hringveginum við Þverá í Öxnadal eins og Akureyri.net sagði frá fyrr í dag. Þá var greint frá því að rúta með hóp körfuboltastráka úr Þór hefði ekið aftan á flutningabíl – síðar var upplýst að þar var um mjólkurbíll að ræða. Líkur eru taldar á að  ökumaðurinn hafi hægt á mjólkurbílnum þegar hann hugðist beygja heim að bænum en bílstjóri rútunnar ekki áttað sig tímanlega á því. Snjókoma og hálka var í dalnum.

Loka þurfti veginum um tíma en umferð hefur nú verið hleypt á aftur. Ökutækin eru enn á vettvangi og þess vegna stýrir lögreglan umferð um veginn.

Bílstjóra mjólkurbílsins sakaði ekki.

„Hópslysaáætlun í umdæminu var virkjuð á grænu viðbragði sem þýðir að aðgerðastjórn kom saman og tryggði að þjónusta við alla sem að slysinu komu yrði sem best og faglegust, hvort sem um þá sem í slysinu lentu og einnig þá viðbragðsaðila sem að því komu,“ segir á Facebook síðu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra.

Smellið hér til að sjá fyrri frétt Akureyri.net um slysið