Opið fyrir skíðamenn í Hlíðarfjalli til 17.00
Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli var opnað í gær, í fyrsta skipti í vetur, og verður opið um helgina, með nokkrum takmörkunum vegna sóttvarnarreglna.
Í dag og á morgun er skíðasvæðið opið frá klukkan 10.00 til 17.00 en til þess að sem flestir geti notið er skíðadeginum skipt í tvennt.
Báða dagana er opið 10.00 – 13.00, þá verður lyftum lokað í klukkustund þannig að þeir sem hverfa þá á braut, og hinir sem koma í fjallið, verði þar ekki samtímis. Síðan verða lyftur í gangi á ný kl. 14.00 – 17.00.
Þeir sem nú þegar hafa keypt sér vetrarkort komast í fjallið hvenær sem er um helgina og er gert ráð fyrir þeim í heildarfjölda sem leyfilegur er í fjallið hverju sinni.
Samkvæmt upplýsingum úr Hlíðarfjalli er mikilvægt er að allir kaupi sér miða á heimasíðu svæðisins, www.hlidarfjall.is áður en komið er. Allir þurfa að eiga Skidata vasakort sem skráð verður í söluferlinu. Ef fólk vantar þannig kort eru þau til sölu á N1 stöðvum á Akureyri og völdum N1 stöðvum í Reykjavík.
Svo minna forráðamenn skíðasvæðisins á þær reglur sem eru í gildi:
- Grímuskylda er í og við skíðahótel, salerni og lyftur
- Tveggja metra regla skal viðhöfð á svæðinu
- Minni flutningsgeta er í stólalyftu, þeir sem mæta saman á svæðið geta farið saman í stól en ef fólk kýs að fara eitt þá á það rétt á því.