Fara í efni
Fréttir

Önnur heilsugæslan hugsanlega einkarekin

Viðbygging við verslunarmiðstöðina Sunnuhlíð vegna nýrrar heilsugæslustöðvar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Heilbrigðisstofnun Norðurlands og heilbrigðisráðuneytið hafa birt tilkynningu þar sem það er áréttað að stefnt sé að því að taka í notkun tvær nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri.

Ekki er loku fyrir það skotið að önnur þeirra verði einkarekin ef marka má niðurlag tilkynningarinnar: Komið hefur í ljós áhugi á fjölbreyttara rekstrarformi í heilsugæsluþjónustu á Norðurlandi. Heilbrigðisstofnun Norðurlands og heilbrigðisráðuneytið munu sameiginlega gera greiningu á því hvort hyggilegt sé að stofnunin reki báðar stöðvarnar eða hvort rekstur annarrar þeirra verði boðin út.

Gera má ráð fyrir að þessi tilkynning komi fram núna að gefnu tilefni eftir að Akureyri.net birti frétt þess efnis að Heilsuvernd áformi að opna heilsugæslustöð á Akureyri. Fyrirtækið rekur hjúkrunarheimilin Hlíð og Lögmannshlíð fyrir ríkið. Í framhaldi af fréttinni hafa skapast umræður og spurningar vaknað um það hvort önnur af þeim stöðvum sem byggðar verða á Akureyri verði einkarekin.

Seinni heilsugæslustöðin mun rísa á núverandi bílastæði við gatnamót Þingvallastrætis og Byggðavegar, að baki trjánna vinstra megin á þessari mynd og ná aðeins inn á núverandi grassvæði. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Í frétt HSN og ráðuneytisins kemur fram að heilsugæslustöðin í Sunnuhlíð verði tilbúin um áramótin, stefnt sé að því að öll klínisk þjónusta HSN á Akureyri flytji þangað í janúar og heilsugæslustöðinni í Hafnarstræti verði lokað á sama tíma.

Önnur heilsugæslustöð mun rísa við Þórunnarstræti, á svokölluðum tjaldsvæðisreit, og er unnið að samningum um byggingu hennar. Ætlunin er að taka hana í notkun á árinu 2026.

Verslunarmiðstöðin Sunnuhlíð þar sem verið er að innrétta heilsugæslustöð. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson