Fara í efni
Fréttir

Öll börn á miðstigi fá tónlistarkennslu

Hjörleifur Örn Jónsson, skólastjóri Tónlistarskólans á Akureyri

Næsta haust mun Tónlistarskólinn á Akureyri sjá um tónmenntakennslu fyrir miðstig í skólum Akureyrar. Um er að ræða nýtt verkefni sem tryggir að allir krakkar í 5.-7. bekk fá tónlistarkennslu með fjölbreyttu sniði. Blaðamaður Akureyri.net settist niður með Hjörleifi Erni Jónssyni, skólastjóra Tónlistarskólans.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Tónlistarskólinn heimsækir skólana með skipulögðum hætti. „Áður vorum við með svokallað 'Söngvaflóð', sem er verkefni þróað að undirlagi Soffíu Vagnsdóttur sem var fræðslustjóri hjá okkur og þróað áfram af tónlistarstkólanum, þar sem tónlistarfólk kom í leik- og grunnskóla bæjarins og var með söngsali,“ segir Hjörleifur. „Það var mikil veisla, þessi fáu ár sem við fengum að halda því úti.“ Verkefnið sem hefst í haust er talsvert ólíkt, en nú hefur Bjarki Guðmundsson, ungur tónlistarmaður búsettur í Boston, með mastersgráðu í uppeldis- og kennslufræðum tónlistar sett saman nám sem verður farið með í alla skólana.

Kennslan verður mjög fjölbreytt, unnið verður með margskonar miðla og sköpun, allskonar hljóðfæri

„Við réðum Bjarka til starfa í fyrra, en hann hefur unnið að þessu í vetur og verið í góðu sambandi við skólastjórnendur í bænum, til þess að heyra hvað það er sem þau vilja og þurfa,“ segir Hjörleifur. „Í haust fer svo þriggja manna teymi í skólana og kennir heilan dag í hverjum skóla á miðstigi. Kennslan verður mjög fjölbreytt, unnið verður með margskonar miðla og sköpun, allskonar hljóðfæri.“ Hjörleifur segir að í þeim skólum sem tónmennt sé nú þegar á dagskrá, bætist þetta nám einfaldlega við. „Við byrjum á miðstigi og ætlum að nota næsta vetur í að læra af mistökum og bæta þjónustu okkar við grunnskólana.“

Bjarki Guðmundsson mundar gítarinn þegar hljómsveitin Paper Tigers, sem hann stofnaði ásamt þremur Bandaríkjamönnum í Boston, lék á stærstu tónlistarhátíð borgarinnar, Boston Calling, sumarið 2022.  og kveðst Bjarki afar ánægður með viðtökurnar. Ljósmynd: Tiffany Hu

„Tónmenntakennsla er gríðarlega mikilvæg fyrir börnin og samfélagið,“ segir Hjörleifur. „Mér finnst eiginlega að það hafi átt sér stað eitthvað rof í tónlistarlífinu hjá heilli kynslóð. Þegar ég var í skóla þá var tónmenntakennsla bara fastur hluti af skólagöngunni.“ Þegar aðalnámsskrá grunnskóla landsins var endurskoðuð árið 2012, var tónmennt tekin út sem skyldufag og í staðinn komu list- og verkgreinar inn í stundatöfluna. 

Það hefur reynst erfitt fyrir skólastjórnendur að ráða í stöðu tónmenntakennara, auk þess sem fullt starf er sjaldnast í boði í einum skóla

„Til þess að kenna tónlist þarft þú að vera sérfræðingur,“ segir Hjörleifur. „Þú þarft eiginlega að hafa helgað líf þitt tónlist að einhverju leyti, og svoleiðis kennarar eru ekki á hverju strái. Það hefur reynst erfitt fyrir skólastjórnendur að ráða í stöðu tónmenntakennara, auk þess sem fullt starf er sjaldnast í boði í einum skóla.“ Hjörleifur bendir þó á að enn eru einhverjir skólar með tónmennt og með kennara í einhverju stöðugildi við kennslu, en það er ekki þannig í öllum skólum á Akureyri.  

Það er, held ég, miklu alvarlegra en fólk gerir sér grein fyrir, þegar tónlistarkennsla hverfur úr samfélagi

„Ein af ástæðunum fyrir því að við viljum kenna börnum tónlist, er að þetta er svo gott tæki til þess að læra alls konar hluti og tengja saman margar heilastöðvar,“ segir Hjörleifur. „Það er, held ég, miklu alvarlegra en fólk gerir sér grein fyrir, þegar tónlistarkennsla hverfur úr samfélagi. Tónlist er hluti af því að vera manneskja. Hún sameinar rökhugsun, líkamlega og huglæga tjáningu, allt í sama viðfangsefninu. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi tónlistar fyrir heilann.“ 

„Við erum öll góð í tónlist,“ segir Hjörleifur. „Frá því að við erum í móðurkviði, erum við góð í tónlist. Við skynjum heiminn í gegn um hljóð fyrst af öllu. Barn lærir að þekkja rödd móður sinnar og þegar það fæðist er það búið að eiga í nokkurra mánaða samtali við heiminn í gegn um heyrn.“ Hjörleifur segir að margir tali um að vera 'laglausir', en þá er fólk væntanlega að miða við einhvern standard sem er óraunhæfur. Tónlist sé innra með okkur öllum og Hjörleifur ítrekar nauðsyn þess að rækta tónlistartengingu frá unga aldri.