Óli efstur: „Ánægður og auðmjúkur“
„Ég er auðvitað gríðarlega ánægður og auðmjúkur vegna þess trausts sem kosningin sýnir. Það er ánægjulegt að þetta er afgerandi niðurstaða en þó jöfn dreifing,“ sagði Óli Halldórsson við Akureyri.net, en hann lenti í efsta sæti forvals VG í Norðausturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar í haust.
„Ég var búinn að finna að framboð mitt fékk góðan stuðning. Ég fékk mikla hvatningu og vissi að þetta myndi ekki fara illa, en átti þó ekki endilega von á að niðurstaðan yrði þessi,“ sagði Óli, spurður að því hvort niðurstaðan hafi komið honum á óvart. „Maður er vanur að fara með hóflegar væntingar í inn í svona, en ég verð að játa að þetta kom mér aðeins á óvart í morgun.“
Óli lagði áherslu á að samskipti frambjóðenda hefðu verið góð. „Við töluðumst öll við í gær og það var allt í góðu á milli okkar; það ríkti traust á milli frambjóðenda og engin úlfúð var í þessu forvali.“
Óli er Húsvíkingur. Telur hann það hafa skipt máli að hann sé úr sama landshluta og Steingrímur J. Sigfússon sem nú hverfur af þingi eftir langa setu? „Nei, ég leit svo á strax í upphafi, þegar tók ávörðun um að bjóða mig fram, að ég myndi þurfa að vinna mitt eigið bakland, þótt ég þykist vita að allir séu með ákveðinn stuðning í sínu nærumhverfi; ég þyrfti að koma inn á mínum forsendum og það gekk vel. Ég lít ekki á niðurstöðuna sem landfræðilega skiptingu, ég átti til dæmis ríkan stuðning á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu, sem kom mér samt þægilega á óvart. Stuðningur við framboð mitt var breiðari en ég átti von á.“