Fara í efni
Fréttir

Landsbyggðarstrætó ókeypis Bíllausa daginn

Bíllausi dagurinn er haldinn næsta sunnudag og þá er frítt í landsbyggðarstrætó.

Evrópsk samgönguvika hófst í dag, 16. september og endar á Bíllausa deginum þann 22. september. Þann dag geta allir ferðast frítt með landsbyggðarstrætó. Því er óvitlaust að skipuleggja ferðalag þann dag, almennt fargjald frá Akureyri til Reykjavíkur er t.d 13.200 kr. svo hægt er að spara peninga með því að ferðast á Bíllausa deginum. Þann dag er einnig frítt í alla vagna á höfuðborgarsvæðinu. 

Evrópska samgönguvikan hefur verið haldin árlega víða um Evrópu frá árinu 2002. Markmiðið er að kynna íbúum í þéttbýli samgöngumáta sem allt í senn eru vistvænir, hagkvæmir og bæta heilsu fólks um leið og þeir hafa jákvæð áhrif á umhverfi og andrúmsloft. Þema samgönguvikunnar í ár er Almannarými - virkir ferðamátar.

Á vef Akureyrarbæjar kemur fram að sveitarfélagið taki þátt í samgönguvikunni „og eru íbúar sveitarfélagsins hvattir til að skilja bílinn eftir heima og nota í staðinn umhverfisvæna og heilsusamlega samgöngumáta,“ segir þar.