Fara í efni
Fréttir

Óháð úttekt verður gerð á þjónustu bæjarins við fatlaða

Skjáskot af vefsíðu Heimildarinnar.

Á fundi Velferðarráðs Akureyrarbæjar, þann 8. maí síðastliðinn, óskaði ráðið eftir því við sviðsstjóra Velferðarsviðs, Guðrúnu Sigurðardóttur, að gerð yrði óháð úttekt á verkferlum er tengjast réttindagæslu fatlaðra í bænum. Tímasetningin gefur til kynna að verið sér að bregðast við máli Sveins Bjarnasonar, sem kom upp í apríl, eftir viðtal við móður hans í Heimildinni.

Þann 4. apríl síðastliðin birti Heimildin viðtal við móður ungs manns, Sveins Bjarnasonar, sem er með mikla fötlun. Sveinn er 35 ára og fæddist með litningagalla. Í viðtalinu kom fram að Sveinn hefði verið læstur inni í þjónustuíbúð á vegum velferðarsviðs Akureyrarbæjar í fimmtán ár og móðir hans, Ásdís Snjólfsdóttir ræddi um baráttu sína fyrir réttindum sonar síns við blaðamanninn Erlu Hlynsdóttur hjá Heimildinni. 

Í viðtalinu kom fram að Sveinn hefði búið í þjónustukjarna að Klettatúni 2 á Akureyri, þar sem hann bjó í íbúð sem var með lásum á skápum, ísskáp og útidyrahurð. Akureyrarbær hefur ekki tjáð sig opinberlega um málið, þar sem persónuverndarlög leyfa ekki að sveitarfélag tjái sig um málefni einstaka íbúa. Blaðamaður Akureyri.net óskaði eftir svörum eftir að viðtalið var birt, en fékk ekki að vita annað en að fundað yrði um málið í Velferðarráði.

Í fundargerð frá fundi Velferðarráðs þann 8. maí síðastliðinn segir að Guðrún Sigurðardóttir sviðsstjóri Velferðarsviðs og Karólína Gunnarsdóttir þjónustustjóri hafi farið yfir stöðu innra eftirlits er varðar nauðung og þvingun á velferðarsviði. Velferðarráð óskaði eftir því á fundinum að sviðsstjórinn myndi láta gera óháða úttekt á verkferlum Akureyrarbæjar í tengslum við V. kafla laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk nr. 88/2011 og að í kjölfarið verði gerðar viðeigandi tillögur að úrbótum.

Kolfinna María Níelsdóttir S-lista, Snæbjörn Guðjónsson V-lista, Guðbjörg Anna Björnsdóttir B-lista og Tinna Guðmundsdóttir F-lista óskuðu eftir eftirfarandi bókun við meðferð málsins: Mikilvægt er að umrædd óháð úttekt og tillögur til úrbóta verði til þess að Akureyrarbær geri ekki mistök við beitingu nauðungar í þjónustu við fatlað fólk.

 

Hér má sjá umrætt viðtal úr Heimildinni.