Fara í efni
Fréttir

Ógnaði kennara með heimatilbúnu skotvopni

Mynd af vef Akureyrarbæjar

Nemandi á unglingastigi í Lundarskóla „sýndi ógnandi hegðun gagnvart kennara“ með heimatilbúnu skotvopni sem hann mætti með í skólann í síðustu viku.

Þetta kemur fram í bréfi sem skólastjórinn, Maríanna Ragnarsdóttir, sendi foreldrum nemenda í gær.

„Öllu jafna er um ljúfan einstakling að ræða en í þessu tilviki höfðum við áhyggjur af hegðun hans og kölluðum til lögreglu sem tók að sér málið ásamt barnavernd. Einstaklingurinn sem um ræðir er ekki í skólanum að svo stöddu og málið komið í viðeigandi ferli,“ segir í bréfinu.

„Málið er litið alvarlegum augum. Hér er um að ræða viðkvæmt og persónulegt atvik sem skólayfirvöld geta ekki tjáð sig um opinberlega,“  segir skólastjórinn.