Fara í efni
Fréttir

Ódýrustu fasteignirnar til sölu á Akureyri

Þrátt fyrir að íbúðaverð fari hækkandi er enn hægt að fá þak yfir höfuðið á Akureyri undir 30 milljónum. Akureyri.net renndi yfir fasteignaauglýsingarnar í leit að ódýru íbúðarhúsnæði í bænum.
_ _ _

Hús við Lundargötu 13 – 16,2 milljónir

Lundargata 13 er tvílyft einbýlishús með kjallara sem er til sölu hjá fasteignasölunni Byggð. Húsið hefur verið dæmt ónýtt smkv. mats- og burðarþolsskýrslum en selst með teikningum að nýju húsi með upprunalegu útliti byggðu í samráði við Minjastofnun. Nýjar teikningar gera ráð fyrir nýtanlegum kjallara, aðalhæð og risi, samtals 144 fm auk þess sem 7 fm. skúr er nú þegar á lóð. https://fasteignir.visir.is/property/602888

_ _ _

Kjallaraíbúð við Hafnarstræti – 25,9 milljónir

Við Hafnarstræti 35 er fasteignasalan Hvammur með 47,6 fm tveggja herbergja íbúð til sölu. Íbúðin er í bárujárnsklæddu timburhúsi með steyptum kjallara. Fjórar íbúðir eru í húsinu en það er sérinngangur í íbúðina. Fyrir um það bil 10 árum var íbúðin tekin alveg í gegn þ.e.a.s. allar lagnir, innréttingar, gólfefni, loftaklæðningar og einangrun. Íbúðin er í göngufæri við miðbæinn með stórum gluggum en er ósamþykkt. https://fasteignir.visir.is/property/308997
_ _ _

Neðri hæð við Hafnarstræti – 26,9 milljónir

Fasteignasala Hvammur er með 3ja herbergja neðri hæð við Hafnarstræti 2 til sölu. Íbúðin er 64,2 fm að stærð og skiptist í forstofu, stofu, tvö svefnherbergi, eldhús, baðherbergi og óskipt rými í kjallara með efri hæð. Sérinngangur er í íbúðina. Stutt í miðbæinn, sjúkrahúsið og í framhaldsskóla bæjarins. Eignin þarfnast endurbóta og er m.a. klædd að utan með asbesti. https://www.mbl.is/fasteignir/fasteign/1240101/
_ _ _

Kjallaraíbúð við Þórunnarstræti – 28,6 milljónir

Við Þórunnarstræti 104 er til sölu kjallaraíbúð sem skiptist í forstofu, baðherbergi, hol, stofu, eldhús og tvö svefnherbergi auk sameiginlegs þvottahúss. Þá fylgir eigninni líka bílastæði. Íbúðin er 67,2 fm að stærð en hún er ekki fyrir mjög hávaxna því innihurðirnar eru aðeins 180 cm háar. Það er fasteignasalan Byggð sem er með þessa íbúð á sölu. https://fasteignir.visir.is/property/616817
_ _ _

Risíbúð við Gilsbakkaveg – 28,9 milljónir

Við Gilsbakkaveg 9 er til sölu þriggja herbergja risíbúð í þríbýlishúsi. Íbúðin sem er 45 fm skiptist í gang, eldhús og stofu í opnu rými, baðherbergi og tvö svefnherbergi. Inngangur og forstofa er sameiginleg með öðrum íbúum sem og þvottahúsið. Sameiginleg forstofa og sameiginlegt þvottahús. Staðsetning íbúðarinnar er góð en hún er í göngufæri við miðbæinn og sundlaugina. Hins vegar er rafmagnskynding í íbúðinni sem er ekki mjög algengt. Hvammur er með þessa íbúð á sölu https://fasteignir.visir.is/property/642436
_ _ _

Risíbúð við Aðalstræti – 29,9 milljónir

Við Aðalstræti 12 er fasteignasalan Kasa með 2 herbergja 62 fm risíbúð til sölu. Úr holi er gengið inn í önnur rými íbúðarinnar; eldhús, stofu, baðherbergi og svefnherbergi. Þá eru geymslur undir súð. Sameiginlegur inngangur. Sér bílastæði norðan við húsið. Íbúðin er á besta stað í innbænum, stutt í ísbúðina Brynju og Skautahöllina. https://www.mbl.is/fasteignir/fasteign/1220257/

_ _ _

ATHUGIÐ - Upplýsingarnar í greininni eru byggðar á auglýsingum fasteignasalanna á fasteignir.is og fasteignavef Morgunblaðsins. Þegar talað er um ódýrar eignir er verið að horfa á uppsett verð, ekki fermetraverð.