Stríð Rússa gegn grunni þjóðaréttar
Rachael Lorna Johnstone, prófessor í lögfræði við Háskólann á Akureyri og sérfræðingur í þjóðarétti, segir að stríð Rússa gegn Úkraínu sé frábrugðið öðrum átökum frá lokum Síðari heimsstyrjaldarinnar 1945
Í grein hennar, sem birtist i Polar Connection á fimmtudaginn, fjallar Rachael um hvernig árás Rússlands á Úkraínu ógnar grunni þjóðaréttar. Í greininni, sem er á ensku og Rachael kallar Ukraine: Why This War is Different fer hún yfir skýringar Pútíns á innrásinni og sýnir fram á að þær séu ekki í samræmi við þjóðarétt. Hún segir mikið hafa verið rætt um lögmæti annarra stríða þar sem stórveldi koma við sögu, en þar hafi ákveðin grundvallaratriði ekki jafn augljóslega verið ólögleg.
„Pútín heldur því fram að gríðarleg mannréttindabrot, jafnvel þjóðarmorð, hafi verið framin í sumum hlutum Úkraínu. En nýlegar skýrslur Sameinuðu þjóðanna benda til þess að þetta sé einfaldlega ekki satt. Jafnvel þótt um misnotkun væri að ræða verður, skv. Mannréttindasáttmála Evrópu og ferlum hjá SÞ, að reyna diplómatískar lausnir; ekki hernaðarinnrás,“ segir Rachael.
Pútín heldur því einnig fram að fólkið í Donetsk- og Luhansk-héruðunum eigi rétt á sjálfstæði og búi við árásir frá Úkraínu. En, eins og Rachael útskýrir þá er þetta algjörlega andstætt afstöðu Rússa sjálfra varðandi aðskilnað Kosovo. Og aftur, hvers kyns inngrip til að vernda fólkið á þessum svæðum, gæti aldrei réttlætt innrás um alla Úkraínu.
Rachael hefur áhyggjur af því hvað þetta þýðir fyrir stöðugleika alþjóðalaga. „Þetta er ekki stríð Rússlands og Úkraínu, Rússlands gegn NATO eða jafnvel Rússlands og Vesturlandanna. Þetta er stríð Rússa gegn sjálfum grunni þjóðaréttar,“ segir Rachael og telur mikilvægara en nokkru sinni að önnur ríki virði alþjóðalög.
Rachael segir að lokum: „Baráttunni fyrir þjóðarétti er ekki lokið; þvert á móti er hún orðin mikilvægari en nokkru sinni fyrr.“
Greinina í heild sinni má lesa ókeypis á heimasíðu Polar Connection https://polarconnection.org/ukraine-war-different-2/