Oddfellowhúsið stækkað um 300 fermetra
Stækkun stendur nú yfir á Oddfellowhúsinu við Sjafnarstíg. Verið er að byggja við húsið í þrjár áttir, samtals 300 fm.
„Húsið var tekið í notkun árið 1994 og nú 30 árum síðar var farið að kalla á meira rými fyrir starfsemina enda meðlimum fjölgað heilmikið síðan húsið var byggt,“ segir Bjarni Jónasson, formaður byggingarnefndar. Með auknum fermetrum bætist við aukin fundaraðstaða, stærri veislusalur, endurbætt eldhús, auk þess sem fatageymsla og snyrtingar stækka. Eftir stækkunina verður húsið um 1500 fm að stærð.
Sjálfboðavinna að hluta
Að sögn Bjarna eru meðlimir Oddfellowreglunnar á Akureyri nú um 500 talsins í alls 7 regludeildum. Reiknað er með því að uppsteypu verði lokið í haust og húsnæðið gert fokhelt. Síðan verða næstu tvö ár notuð til að innrétta rýmin. „Ef allt gengur samkvæmt áætlun reiknum við með því að allt verði klárt árið 2026,“ segir Bjarni. Eins og þegar Oddfellowhúsið var upphaflega byggt þá verður hluti verksins unninn í sjálfboðavinnu enda mikið af öflugu fólki innan raða Oddfellowreglunnar sem lagt getur gjörva hönd á plóg eins og Bjarni orðar það. „Svo verðum við bara að sjá hvort þessi stækkun á aðstöðunni dugi okkur í önnur 30 ár.“
Eftir stækkun verður Oddfellowhúsið um 1500 fm að stærð.