Oddfellow stúkurnar færðu Pieta 2 milljónir
Oddfellowstúkurnar á Akureyri veittu Pieta samtökunum tæplega 2 milljóna króna styrk í vikunni – 1.950.000 krónur. Fulltrúar Oddfellowstúknanna í bænum mættu í húsakynni Pieta samtakanna á Akureyri og nágrenni þar sem Hugrún Marta Magnúsdóttir, yfirmeistari Rebekkustúkunnar Laufeyjar nr. 16, afhenti styrkinn fyrir hönd stúknanna og Karen Elsu Bjarnadóttir veitti honum viðtöku.
Karen, sem er starfsmaður samtakanna á Akureyri og Húsavík, sagði síðan frá starfsemi samtakanna en hún beinist meðal annars að því að aðstoða fólk með sjálfsvígshugsanir og/eða sjálfsskaða og aðstandendur fólks í sjálfsvígshættu og/eða með sjálfsskaða. Einnig aðstoða samtökin fólk sem hefur misst einhvern náinn úr sjálfsvígi.
Starfsstöðvar Pieta samtakanna eru í Reykjavík og á Ísafirði, Akureyri og Húsavík. Pieta samtökin aðstoða þau sem hafa náð 18 ára aldri en stuðnings- og ráðgjafasetrið Bergið Headspace aðstoðar þau sem yngri eru. Pieta samtökin sinna fólki með sjálfsvígshugsanir og sjálfsskaða allan sólarhringinn því alltaf er hægt að ná í starfsmann samtakanna í gegnum Pieta símann 5522218. Þjónusta samtakanna er gjaldfrjáls og fólk leitar þangað af eigin vilja.
Aðspurð sagði Karen að ákveðnir toppar væru í starfseminni á vorin þegar prófatíð er og á haustin þegar skólar væru að hefjast. Einnig eykst alltaf ákall í þjónustu samtakanna þegar þau auglýsa starf sitt og nefndi Hugrún Marta í þessu sambandi að kveikjan að styrkveitingunni hefði einmitt verið í haust þegar Gulur september var auglýstur en hann er samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna saman að geðrækt og sjálfsvígsforvörnum.
Að lokum lét Hugrún Marta þá ósk í ljós, fyrir hönd stúknanna, að styrkurinn nýttist sem mest í starfi samtakanna norðanlands.
Á myndinni eru, frá vinstri: Haraldur Jósefsson, Sjafnarbróðir, Þórarinn Valur Árnason, Sjafnarbróðir, Karen Elsu Bjarnadóttir frá Píeta samtökunum, Pia Maud Petersen, Auðarsystir, Hugrún Marta Magnúsdóttir, Laufeyjarsystir, Ragnheiður Sveinsdóttir, Laufeyjarsystir, Sveinn Aðalgeirsson, Freyjubróðir og Gestur Davíðsson, Ránarbróðir.