Oddfellow: 4,6 milljónir til Velferðarsjóðs
Oddfellowstúkurnar á Akureyri afhentu í dag Velferðarsjóði Eyjafjarðarsvæðis 4,6 milljónir króna að gjöf. Fimm Oddfellowstúkur eru starfandi í bænum og hafa styrkt Velferðarsjóðinn og fyrirrennara hans myndarlega um árabil.
Velferðarsjóðurinn aðstoðar efnaminni einstaklinga og fjölskyldur bæði fyrir jólin og á öðrum tíma árs en reynslan sýnir að eftirspurnin er mest í aðdraganda jólanna.
Á síðasta ári voru reglubundnar úthlutanir úr Velferðarsjóði rúmlega 500, sem var mikil aukning frá síðustu árum. Á þessu ári hefur sjóðurinn þegar aðstoðað 572 fjölskyldur eða einstaklinga, áður en aðal jólaaðstoðin hefst.
Velferðarsjóður Eyjafjarðarsvæðis er samstarfsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar, Hjálpræðishersins á Akureyri, Mæðrastyrksnefndar Akureyrar og nágrennis og Rauða krossins við Eyjafjörð.
Styrkurinn var afhentur í Regluheimili Oddfellow við Sjafnarstíg á Akureyri í dag. Það var Herdís Helgadóttir, formaður stjórnar Velferðarsjóðs Eyjafjarðarsvæðisins, sem veitti styrknum viðtöku.
Frá vinstri: Jóhann Ingason, Hanna Sigurjónsdóttir, Ragnheiður Sveinsdóttir, Karl Ingimarsson, Hugrún Magnúsdóttir, Pia Maud Petersen, Herdís Helgadóttir, Gestur Ragnar Davíðsson, Finnur Víkingsson og Sveinn V. Aðalgeirsson.