Fara í efni
Fréttir

Nýtt stjórnskipulag Sjúkrahússins á Akureyri

Framkvæmdastjórn Sjúkrahússins á Akureyri samkvæmt nýja skipulaginu. Frá vinstri: Helgi Þór Leifsson, Konráð Gylfason, Hildigunnur Svavarsdóttir, Hulda Ringsted, Ragnheiður Halldórsdóttir og Erla Björnsdóttir. Mynd: SAk.is

Nýtt skipurit Sjúkrahússins á Akureyri tekur gildi í dag. Greint er frá því í tilkynningu sjúkrahússins að helstu áherslubreytingar snúi að auknum stuðningi við klíníska þjónustu, en með sameiningu þriggja klínískra sviða sé stuðlað að auknu samstarfi og samhæfingu allrar klínískrar þjónustu (göngu-, dag- og legudeilda).

Með nýja skipuritinu fá framkvæmdastjóri hjúkrunar og framkvæmdastjóri lækninga skýrara hlutverk og aukna ábyrgð sem leiðtogar faglegrar framþróunar á sjúkrahúsinu. Verkefni þeirra verður að leiða svið faglegrar framþróunar og samhæfa hlutverk og þjónustu sérgreina og sérsviða sjúkrahússins í samvinnu við starfsfólk og framkvæmdastjórn, að því er fram kemur í fréttinni.

Í frétt SAk segir Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri: „Við lögðum mikla og vandaða vinnu í greiningu á stjórnsýsluskipulagi sjúkrahússins í samráði við framkvæmdastjórn, fagráð, stjórnendur og starfsfólk auk þess að hafa KPMG með okkur í þessu verkefni. Þessi vinna skilaði því að allir faghópar vildu sjá betra samráð endurspeglað í nýju skipuriti,“ segir Hildigunnur.

Í nýja skipuritinu er lögð meiri áhersla á mannauðsmál þar sem nýtt mannauðssvið verður til og er þannig brugðist við mönnunarvanda og áskorunum sem honum fylgja, sérstaklega eftir erfið ár heimsfaraldursins, að því er fram kemur í frétt SAk, en þar fylgir einnig 38 síðna rit með ítarlegri skilgreiningu hinu nýja stjórnskipulagi.

Framkvæmdastjórn SAk eftir nýja skipuritinu

Fyrir nokkru var tilkynnt um ráðningu Guðbjarts Ellerts Jónssonar í stöðu fjármálastjóra og verður lögð aukin áhersla á fjármál og greiningar. Starf fjármálastjóra heyrir beint undir forstjóra. Framkvæmdastjórn SAk eftir nýja skipuritinu er þannig skipuð:

  • Forstjóri: Hildigunnur Svavarsdóttir
  • Framkvæmdastjóri hjúkrunar: Hulda Ringsted
  • Framkvæmdastjóri klínískrar þjónustu: Helgi Þór Leifsson
  • Framkvæmdastjóri lækninga: Ragnheiður Halldórsdóttir
  • Framkvæmdastjóri mannauðssviðs: Erla Björnsdóttir
  • Framkvæmdastjóri rekstar og klínískrar stoðþjónustu: Konráð Gylfason

Hildigunnur kveðst hafa mikla trú á þessari breytingu og að með því að sameina klínísku sviðin gefist betra tækifæri til að horfa á þjónustuna sem heild, sjúklingum og starfsfólki í hag. „Þannig skapast einnig tækifæri til þróunar á klínískri starfsemi burtséð frá einingum. Með tíð og tíma sjáum við fram á mikla hagkvæmni með aukinni yfirsýn og endurskoðaðri starfsemi,“ segir Hildigunnur í frétt SAk.