Fara í efni
Fréttir

Nýtt húsnæði tryggt fyrir Norðurhjálp

F.v. Anna Jónu Vigfúsdóttir, Stefanía Fjóla, Guðbjörg Thorsen og Sæunn Ísfeld, stofnendur og sjálfboðaliðar Norðurhjálpar. Myndin var tekin á opnunardegi Norðurhjálpar við Dalsbraut. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

„Það er mikil gleði hjá okkur núna, við vorum að landa samning að nýju húsnæði,“ segir Sæunn Ísfeld, ein af stofnendum Norðurhjálpar, við blaðamann Akureyri.net, en það hefur verið mikil óvissa ríkjandi hjá starfsfólkinu síðan leigusamningi þeirra við Dalsbraut var sagt upp. Þeim var gert að vera farin fyrir 1.mars, þannig að það fór að vera tæpt að finna nýjan stað. Norðurhjálp rekur nytjamarkað sem ver öllum ágóða sölunnar til þess að styrkja einstaklinga og fjölskyldur á svæðinu, sem eiga erfitt með að ná endum saman.

Mikill léttir

„Við erum komin með gott húsnæði við Óseyri 18, þar sem bókamarkaðurinn var til dæmis fyrir jólin,“ segir Sæunn. „Keramikloftið var þarna á efri hæðinni líka. Við þurfum náttúrlega einhvern tíma til þess að taka í gegn og koma okkur fyrir, en við munum auglýsa það vel á Facebook síðu Norðurhjálpar þegar við opnum á nýjum stað. Þá verður sko gleði!“ Sæunn segir að það sé mikill léttir að leigusamningur sé kominn í hús, að húsnæði sem henti markaðnum vel. „Það er svo gott að geta farið bara beint með allt dótið í nýja húsnæðið, við vorum byrjuð að reyna að finna geymslur hér og þar, en nú þarf ekkert að vesenast í því.“

 

Hér má sjá hvar nýja húsnæðið er, skammt frá smábátahöfninni í Sandgerðisbót. Mynd: skjáskot af Google maps

Tækifæri til að gera góð kaup

Undanfarnar vikur hefur verið pokasala í Norðurhjálp, þar sem viðskiptavinir geta fyllt poka og borga aðeins 1.500 kr. fyrir. „Síðasti opnunardagurinn okkar hérna við Dalsbrautina verður á laugardaginn, 22. febrúar. Þá er opið frá 13-16 og við verðum með allt á mjög góðu verði.“ Það eru góðar fréttir fyrir þau sem hafa þegið aðstoð frá Norðurhjálp, að nýtt húsnæði sé tryggt, en á árinu 2024 gaf Norðurhjálp 26 milljónir til efnaminni bæjarbúa, ýmist í formi inneignarkorta, fatnaðs eða matar. Það er greinilegt að þörfin er til staðar.

Frétt Akureyri.net um húsnæðisleit Norðurhjálpar