Fara í efni
Fréttir

Nýr vefur Bjarmahlíðar þolendamiðstöðvar

Bjarmahlíð, þolendamiðstöð fyrir þolendur ofbeldis, er til húsa í Aðalstræti 17.

Bjarmahlíð, þolendamiðstöð fyrir þolendur ofbeldis, hefur opnað nýja vefsíðu, bjarmahlid.is, og þakkar ótrúlega mögnuðu tengslaneti kvenna í atvinnulífinu að verkefnið sé orðið að veruleika.

Vefsíðan er unnin sem styrktarverkefni nokkurra aðila og byrjaði boltinn að rúlla fyrir tilstilli Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA. Kristín Snorradóttir, teymisstjóri Bjarmahlíðar og stjórnarkona í FKA Norðurland, lét þau boð út ganga að hún sem teymisstjóri Bjarmahlíðar óskaði eftir styrkjum til þess að vinna nýja heimasíðu.


Harpa Magnúsdóttir, eigandi Hoobla, Elfur Logadóttir, sem rekur ERA lausnir ehf., og Vigdís Guðmundsdóttir, vefhönnuður og markaðssérfræðingur, áttu þátt í því að gera Bjarmahlíð kleift að opna nýja vefsíðu.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Harpa Magnúsdóttir, eigandi Hoobla, gekk í það verkefni að finna vefsíðuhönnuði til að vera með í styrktarverkefni í heimasíðugerð í von um að fá gott tilboð. Hoobla styrkti Bjarmahlíð með þessu og má segja að styrkurinn hafi margfaldast því þannig fengu þær Vigdísi Guðmundsdóttur, vefhönnuð og markaðssérfræðing með meiru, til liðs við sig og gaf hún alla sína vinnu við vefinn sem styrk til Bjarmahlíðar. Vigdís fylgir síðunni eftir og styður starfsfólk Bjarmahlíðar við að læra að nota síðuna. Elfur Logadóttir, sem rekur fyrirtækið ERA lausnir ehf., ráðgjafarfyrirtæki á sviði tækniréttar, kom einnig að verkefninu.

Djúpslökun fyrir notendur Bjarmahlíðar

Bjarmahlíð hefur auk þess bætt við þjónustu sína við notendur og býður nú upp á djúpslökun. Í frétt frá Bjarmahlíð segir að rannsóknir sýni að iðkun djúpslökunar hafi góð áhrif á streitukerfi líkamans og lækki magn kortisols, sem er streituhormón, og auki þar með dópamínframleiðslu og sé mikilvægur liður í því að efla notandan á allan hátt. Kristín teymisstjóri er menntaður jóga- og hugleiðslukennari auk þess sem hún er með grunn- og framhaldsnám í klínískri dáleiðslu og hefur nýtt djúpslökun í vinnu sinni með fólki síðustu ár með góðum árangri.

Notendum Bjarmahlíðar gefst kostur á djúpslökun þeim að kostnaðarlausu samhliða öðrum úrræðum sem Bjarmahlíð leiðir notandann í.