Nýr starfsmaður og fullkomin prentvél
Hálfur annar áratugur er liðinn síðan Hermann Arason stofnaði fyrirtækið Prentsmiðjuna á Akureyri. Það var haustið 2006 sem hann lét til skarar skríða og hefur verið einyrki allt þar til á dögunum að fjöldi starfsmanna fyrirtækisins tvöfaldaðist! Anton Ingi Þorsteinsson, offsetprentari, sem áður starfaði hjá Ásprenti gekk þá til liðs við fyrirtækið. „Reynsla hans og þekking á eftir að koma fyrirtækinu og viðskiptavinum til góða,“ segir Hermann við Akureyri.net.
Önnur nýleg tíðindi eru þau að Prentsmiðjan.is, sem er til húsa við Hvannavelli, keypti stóra, afkastamikla og fullkomna stafræna prentvél. Hún getur prentað flest það sem mönnum dettur í hug, að sögn Hermanns, til dæmis bæklinga og bækur. „Við höfum líka fjárfest í stafrænni límmiðaprentvél og búnaði til að skera límmiða í hvaða formi sem er. Nú getum við framleitt límmiða mun ódýrar en áður og í nánast hvaða magni sem er,“ segir hann.
Fjölbreytt verkefni
„Í fyrstu var aðal áherslan á pappírsprentun með nýjustu stafrænni prenttækni og segja má að strax frá fyrsta degi hafi verkefnin verið fjölbreytt, allt frá nafnspjöldum til bæklinga og bóka,“ segir Hermann. Í byrjun árs 2007 fór fyrirtækið að bjóða uppá margvíslega stórprentun, sem svo er kölluð, til dæmis fyrir skilti og ýmislegt annað. „Sú starfsemi hefur allt frá upphafi verið mjög umfangsmikil. Þó þessi framleiðsla sé kölluð skiltagerð þá er það frekar samheiti fyrir fjölbreytta flóru verkefna, allt frá límmiðum til prentunar á 40 feta gáma eða leikmyndar í leikhúsi. Einnig hefur fyrirtækið tekið að sér að merkja bíla og flugvélar,“ segir Hermann Arason.
„Prentsmiðjan.is er eina akureyrska prentsmiðjan sem býður uppá alhliða prentþjónustu og við leggjum mikla áherslu á fljóta og góða þjónustu – og hagstætt verð,“ segir Hermann.