Nýnemadagar loks á skólasvæðinu á ný
Nýnemadagar eru þessa viku í Háskólanum á Akureyri og mörgum, bæði nemendum og starfsfólki, þykir það sérlega ánægjulegt vegna þess að á síðasta ár voru þeir þessir dagar eingöngu rafrænir vegna kórónuveirufaraldursins. Það er „mikið gleðiefni að í ár skuli vera hægt sé að taka á móti nýnemum í húsnæði HA,“ segir í tilkynningu frá skólanum.
Dagskráin fer fram í takt við sóttvarnaraðgerðir og ólíkt fyrri nýnemadögum verður hópnum skipt upp eftir deildum.
„Það eru 1.148 nýnemar skráðir í grunn- og framhaldsnám við HA á þessu haustmisseri. Sum hver, sem koma beint úr framhaldsskólum, eru orðin þreytt á að sitja heima með takmarkað félagslíf. Við vitum eftir reynslu okkar af rafrænum nýnemadögum í fyrra að við getum vel haldið þá rafræna en þá vantar upp á tengslin sem stúdentar upplifa strax á fyrstu dögunum. Við erum því afar þakklát fyrir að geta boðið þeim að koma hingað í hús og tengjast strax samnemendum sínum,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.
Á nýnemadögum fá nýnemar kynningu á námssamfélaginu, s.s. kennslukerfum og þjónustu háskólans. Markmið nýnemadaga er að nýnemar læri hvar þeir geta leitað sér aðstoðar. Þeir sem ekki komast á staðinn geta fylgst með dagskránni í streymi og greinagóðar upplýsingar er að finna á vef HA, www.unak.is.
„HA er persónulegur háskóli og á nýnemadögum kemur bersýnilega í ljós að við sinnum hverjum og einum. Stúdentafélagið grillar svo fyrir alla hópana í hádeginu og á föstudaginn er gert ráð fyrir sprelli þar sem nýnemum gefst enn betra tækifæri til að kynnast. Það ætti enginn að missa af þessari gleði,“ segir Nökkvi Alexander Rounak Jónsson, formaður Stúdentafélags HA (SHA)
Að vanda verður Íslandsklukkunni hringt í tilefni af upphafi skólabyrjunar en það er fulltrúi nýnema sem slær 21 högg – eitt högg fyrir hvert ár frá árinu 2000. Sú athöfn fer fram klukkan 13.00 á föstudaginn, almenningi er velkomið að fylgjast með hringingunni en passað skal upp á sóttvarnir.
Alls stunda nú 2.545 stúdentar nám við Háskólann á Akureyri. Það er tvöföldun síðan árið 2002. Námsfyrirkomulag við HA gerir stúdentum leift að stunda námið úr sinni heimabyggð en stúdentar mæta í námslotur til Akureyrar. „Nýnemadagar eru fyrsta námslota hvers nýnema og við fögnum því að geta kynnt þeim háskólann og námið á staðnum á ný,“ segir Eyjólfur rektor.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í vikunni.
Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA, ávarpar nemendur á nýnemadögum.