Fara í efni
Fréttir

Nýir rekstraraðilar mathallar á Glerártorgi spýta í lófana

Guðmundur Pétursson og Aron Lárusson, nýjir rekstraraðilar Mathallarinnar á Glerártorgi. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Nú dregur til tíðinda á Glerártorgi, en nýir rekstraraðilar mathallarinnar, frændurnir Guðmundur Pétursson og Aron Lárusson eru í óða önn að finna matsölustaði í nýju höllina. „Við þorum ekki að lofa neinu, en við vonum svo sannarlega að við getum opnað um mitt sumarið,“ segir Guðmundur, en hann hefur verið kokkur í 22 ár. Aron er með bakgrunn í fjarskiptaumhverfinu og lærður viðskiptafræðingur. 

Frændurnir reka saman pizzustaðinn Pizza Popolare í Pósthús Mathöll í Reykjavík, og eru búsettir þar. „Við viljum leggja leið okkar norður og taka þátt í veitingaflórunni hérna,“ segir Aron. „Þegar okkur var boðið að stíga inn hérna ákváðum við að slá til og gera okkar besta.“ Frændurnir segjast ekki útiloka flutning norður, en Guðmundur á fjölskyldu í Reykjavík. „Aron mun vera meira á staðnum til að byrja með.“ 

Síðan verða fimm veitingastaðir í viðbót, og við erum eins og staðan er núna að raða saman í flotta mathöll

Eins og staðan er, er ekki tímabært að segja frá því hvaða veitingastaðir verði í mathöllinni, fyrir utan Pizza Popolare. „Já, við verðum með okkar stað, sem gengur mjög vel í Pósthúsinu,“ segir Guðmundur. „Síðan verða fimm veitingastaðir í viðbót, og við erum eins og staðan er núna að raða saman í flotta mathöll. Það þarf að mæta þörfum, vera með ólíka rekstraraðlia. Við teljum okkur vera að setja saman öfluga liðsheild,“ segir Guðmundur. „Við erum komnir með fallega ásýnd rekstraraðila sem við þurfum að velja úr,“ bætir Aron við. 

Þetta er frábært tækifæri fyrir veitingaaðila hérna fyrir norðan sem vilja byrja með eitthvað nýtt concept, að hafa mathöll í bænum

„Það eru bæði rekstraraðilar á borðinu að norðan og sunnan,“ segir Guðmundur. „Bestu kokkar sem ég hef unnið með eru héðan, og okkur langar að hafa þetta fjölbreytt. Þetta er frábært tækifæri fyrir veitingaaðila hérna fyrir norðan sem vilja byrja með eitthvað nýtt concept, að hafa mathöll í bænum.“ Fyrir utan að reka sinn pizzastað, munu frændurnir sjá um að halda utan um rekstur mathallarinnar fyrir Fasteignafélagið Eik sem á og rekur Glerártorg. „Við sjáum líka um kynningu mathallarinnar og gæðastjórnun,“ segir Guðmundur. 

Gaman er að segja frá því, að pizzastaður frændanna, Pizza Popolare, sem verður einn sex veitingastaða í mathöllinni á Glerártorgi, komst nýverið á lista yfir 50 bestu pizzastaði heims á ítölsku síðunni 50 Top Pizza.

„Við erum eiginlega bræður, hann er systursonur minn og það eru bara átta ár á milli okkar,“ segir Guðmundur. „Það er skemmtilega ólíkur bakgrunnur hjá okkur í vinnuumhverfinu, en við vinnum vel saman,“ bætir Aron við. Auk þess að vera viðskiptafræðingur er hann með meistarapróf frá Bifröst í þjónandi forystu, með áherslu á mannauðsstjórnun. Guðmundur hefur mest verið í eldhúsinu, með örfáum hliðarskrefum. „Hann er afleitur í eldhúsinu, en þó alltaf að batna,“ segir Guðmundur, þegar blaðamaður spyr um kokkahæfileika Arons. „Ég er góður í að smakka og tala um gæði og áferð,“ bætir Aron við hlæjandi.