Fara í efni
Fréttir

„Hve líf sem friðar nýtur andar rótt“

Þórgnýr Dýrfjörð heimspekingur og sóknarnefndarmaður í Akureyrarkirkju. Ljósmynd: Daníel Starrason

Þórgnýr Dýrfjörð, heimspekingur og sóknarnefndarmaður, flutti predikun við nýársmessu í Akureyrarkirkju í dag. Akureyri.net fékk leyfi Þórgnýs til að birta predikunina í heild._ _ _

Kæru kirkjugestir – gleðilegt nýtt ár.

Ég stend hér með von í hjarta en ástandið í heiminum litar það sem mig langar að segja.

***

„Hjá rúmi barnsins logar ljós í stjaka.
Hve líf sem friðar nýtur andar rótt.“

Þessi hending er úr kvæðinu Jólanótt sem Einar Bragi skáld orti árið 1972. Þessar fyrstu línur eru svo fallegar og við sjáum myndina svo glöggt fyrir okkur. Lítið barn undir sænginni, ljós við rúmstokkinn, allt er hljótt – og svo þessi lína;

„Hve líf sem friðar nýtur andar rótt.“

Og hversu magnað væri það ef öll börn fengju að anda rótt og njóta friðar. Nú er það vissulega svo, því miður, að það njóta ekki öll börn á Íslandi friðar, ekki einu sinni heima hjá sér. En þessi einfalda mynd sem Einar dregur upp stangast einnig svo hróplega á við þær myndir sem við sjáum nú daglega í sjónvarpi og á vefmiðlum frá stríðshrjáðum svæðum, ekki síst frá Gasasvæðinu. Þar er talið er að allt að 10 þúsund palestínsk börn hafi látið lífið, hafi verið drepin, í árásum Ísraelsmanna. Við sjáum særða og látna almenna borgara – fólk fullt örvæntingar og ótta. Við sem friðar njótum fyllumst réttlátri reiði ekki síst þegar Ísraelar herða heldur sóknina á þeim tíma sem við höldum hátíð ljóss og friðar. Þegar við reynum að fylla brjóstin friði.

Einar Bragi skáld var líka reiður þegar hann orti kvæðið sitt Jólanótt árið 1972. Hann orti ljóðið af því tilefni að Bandaríkjamenn hertu sprengjuregnið í Víetnam fyrir og yfir jólin það árið. Stundum kallaðar Jóla-loftárásirnar og talið er að um 1.600 óbreyttir borgarar hafi látið lífið. Við heyrum reiði Einars þegar við lesum allt ljóðið: 

Hjá rúmi barnsins logar ljós í stjaka.
Hve líf sem friðar nýtur andar rótt.
Ég veit í haga hirðar góðir vaka
og hjarðar sinnar gæta enn í nótt.

En burt er vikinn sá er forðum færði
þeim fögnuð mikinn, lýðnum nýja von.
Með kross á enni annar kom og særði
til ólífis þinn bróður, mannsins son.

Og fánýt er þín leit að leiðarstjörnum:
þær leynast daprar bak við niðdimm ský,
því handa jarðarinnar jólabörnum
er jata engin til að fæðast í.

Með ykkur snauðu hirðar vil ég vaka
og vitringunum þessa löngu nótt
og minnast þess við lítið ljós í stjaka,
hve líf sem friðar nýtur andar rótt.

Einar Bragi er svo reiður. Hann sér ekki betur en að engill Drottins sem áður færði hirðingjunum mikinn fögnuð sé á brott horfinn en að annar verri hafi komið í hans stað og jafnvel gert út af við Frelsarann sjálfan. Og stjarnan sem áður vísaði veginn vitringunum sé horfin sjónum. Að heimurinn sé engin staður fyrir börn að fæðast í. Og það er auðvelt að deila þessari reiði, einkum um þessar mundir – að missa trú á mannkynið og hið góða. En tökum líka eftir því að Einar Bragi ætlar að setjast niður með hinum valdalausu og snauðu.

***

En það er þetta með hið góða og hið illa. Nýlega sá ég heimildamynd sem kallast á ensku "Ordinary men" eða „Ósköp venjulegir menn“ eins og við segðum á Íslensku en myndin byggir á bók eftir sagnfræðinginn Christopher Browning. Hún er um lögreglusveitirnar sem nasistar komu upp í hernumdum löndum og voðaverk þeirra í seinni heimstyrjöldinni. Og þá undrun sem fylgdi þeirri uppgötvun að menn sem gengu til liðs við þessar sveitir og tóku af lífi hundruð þúsunda Gyðinga, voru ósköp venjulegir menn. Menn sem höfðu þann starfa í stríðinu að skjóta fólk ofan í fjöldagrafir á stuttu færi, þúsundum saman, menn, konur, börn og kornabörn. Þegar þeir voru teknir til yfirheyrslu við Nürnberg réttarhöldin eftir stríð kom þetta berlega í ljós. Þar sem fólk átti von á að hitta fyrir skrímsli og varmenni, voru fyrrum bílstjórar, smiðir, hársnyrtar, bóksalar o.s.frv. Menn sem vissu hvað þeir voru að gera. 

Ályktun sem draga má af þessu er að hver sem er sé fær um að gerast morðingi í þágu ógnarstjórnar. Verulega ágeng og ógnvænleg staðreynd sem því miður endurtekur sig aftur og aftur. Heimspekingurinn Hannah Arendt sem skrifaði bók um réttarhöldin yfir einum helsta böðli nasista, Adolf Eichman, í Jerúsalem komst að sömu niðurstöðu; að hann hafi verið venjulegur maður, hlýðinn kerfiskarl umfram allt. Undirtitill bókarinnar er einmitt „greinargerð um lágkúru illskunnar“.

Hrafnhildur Sigmarsdóttir, ráðgjafi hjá Stígamótum, skrifaði í haust grein sem hún nefndi „Ofbeldismaður Íslands“ þar sem hún fjallar um kynbundið ofbeldi karla gegn konum og börnum og hrekur ýmsar mýtur og hugsanavillur sem gjarna dúkka upp þegar það erfiða mál ef til umfjöllunar. Þar á meðal hvaða augum við viljum sjá ofbeldismennina. Hún skrifar:

„Þegar kemur að ein­stak­lingum sem brjóta kyn­ferð­is­lega á full­orðnum og börnum viljum við að þetta séu fram úr hófi óaðl­að­andi menn sem eng­inn vill þekkja og að þeir séu helst ein­getnir og án móð­ur. Krafan er órök­rétt en í sam­ræmi við heimsmyndarósk þeirra sem ekk­ert illt vilja sjá eða vita. Við viljum að þeir líti út fyrir að vilja öðrum skaða. Við viljum að þeir þekki ekki fórnar­lömb sín, ráðist á þau inni í dimmum húsasundum úr laun­sátri þar sem þau eru grun­laus og varn­ar­laus. Best ef þær eru blindfullar og í stuttum pilsum svo hægt sé að deila ábyrgð og samfélagsskömm. Stað­reyndin er hins vegar önnur og það virð­ist skekkja heims­mynd fólks.“

Í framhaldinu bendir hún svo á að afbrotamennirnir séu einmitt oftast vinir okkar, feður, synir, afar og frændur, vel liðnir menn, sameiningartákn bæja og dáðadrengir, menn sem fólki þykir vænt um. Og Hrafnhildur segir jafnframt: „Þegar þessir ein­stak­lingar eru grun­aðir um kyn­ferð­is­brot virð­ist heimsmynd margra hrynja. Aðstand­endur og aðdá­endur upp­lifa holl­ustuklemmu og þar sem kynferð­is­af­brot eru alvar­leg og ógeð­felld frá­viks­hegðun þá virð­ist of mörgum tamara að deila sök­inni með þol­anda, afneita sann­leik­anum eða afbaka stað­reynd­ir.“

***

Það er m.a. vegna þessa sem það lýsir svo djúpu hugrekki að hálfu þolenda að stíga fram – oft í nánast óbærilegum kringumstæðum. Þá má og velta fyrir sér hvort það sem Hrafnhildur segir um hollustuklemmuna og það að gera þolandann að blóraböggli, um afstöðu margra, megi ef til vill heimfæra á stærra samhengi þar sem valdamikil ríki í yfirburðastöðu ráðast gegn öðrum veikum og undirokuðum?

Allt um það. Þótt þetta síðasta dæmi sé af ólíkum toga en þau fyrri, þá ber það okkur að sama brunni. Þrátt fyrir benda megi á dæmi um fólk sem virðist með öllu siðblint og líti svo á að það sé undanþegið þátttöku í siðuðu samfélagi, þá er hið illa langoftast fólgið í glímu sem venjulegt fólk háir. Það er fólgið í okkur sjálfum og því að vera manneskja og lifa í samfélagi þeirra. Niðurstaðan er jafnframt að við þurfum að standa í lappirnar gegn því, almættið hefur ekki hagað málum með þeim hætti að við séum laus undan erfiðleikum, hörmungum, átökum, breyskleika og óréttlæti. Ef svo væri þá værum við líklega einhver önnur skepna en mannskepna. Við vitum líka að oft eru það brekkurnar og hið óvænta sem færir okkur mestan vöxt og þroska í lífinu og í erfiðleikum birtast oft fegurstu hliðar mannsins.

Svona er þetta snúið.

***

Þegar ég var að undirbúa þessa hugleiðingu þá barst það í tal við vinkonu mína, að samkvæmt séra Hildi Eir þá mætti vera svolítið pólitískur í predikun á nýársdag og jafnframt að ég hygðist víkja talinu að stríðsástandinu á Gasa. Vinkonan sagði; þú þarft nú ekki að tala um pólitík til að reifa það – það er nóg að tala um mannúð.

Og það er alveg hárrétt hjá henni. Ég sagði áðan að við yrðum að standa í lappirnar þegar fólk er órétti beitt og ein spurningin sem vaknar er: Til hvers á að vísa þegar við gerum það? Kannski er svarið augljóst – við vísum til einhvers sem er stærra en við hvert og eitt. Mannréttindi eru einmitt þannig, þau eiga að vera okkur tryggð hverju og einu, en þau eru um leið hugmynd sem er fólgin í samfélaginu sem við búum og standa þannig óhögguð alveg sama hvað okkur finnst hverju um sig. Mannréttindi eru um það sem skiptir okkur raunverulega mestu í lífinu. Þau eiga að standa vörð grundvallar verðmæti og meðal þess sem þar má telja er: Fæði, klæði, húsaskjól, heilsa, öryggi, vöxtur, þroski og sjálfræði. Þau atriði sem við teljum upp þegar við erum spurð um hvað skipti okkur raunverulega mestu máli í lífinu (og þótt Volvo-inn sé frábær þá er hann hvergi nærri að rata á listann). Og ef við lítum svo á að við eigum rétt á þessum verðmætum þá er það vita merkingarlaus krafa nema við séum um leið tilbúin að undirgangast þá skyldu að virða sömu réttindi annarra.

Einn grunnur mannréttinda er hugmyndin um mannhelgina, að manneskjur hafi eigið gildi eða reisn. Þessa hugmynd má rekja til þýska heimspekingsins Immanuels Kant og má lýsa með eftirfarandi orðum:

Komdu aldrei fram við nokkra manneskju, sjálfa þig eða aðra, einungis sem tæki, heldur ávallt um leið sem markmið í sjálfu sér.

Fjöldamargt hefur gildi fyrir okkur vegna þess sem við þráum eða okkur langar. Þannig hefur kennslubók í skák gildi fyrir þá sem vilja verða góðir í skák – hún er tæki fyrir þá sem eftir því sækjast. Hugmyndin um mannhelgina þýðir að við megum aldrei líta á aðrar manneskju sem einber tæki fyrir okkur til að ná markmiðum okkar. Að hver mannvera hafi sjálfstætt gildi fyrir það eitt að vera manneskja.

Það er á þessum grunni sem við eigum að krefjast þess að tafarlaust verði gert vopnahlé á Gasa. Engin hefur rétt til að ræna almenna borgara lífi sínu, öryggi og friði. Það á engin að geta rænt börn draumum sínum og möguleikum á að vaxa og dafna – það er samt gert og er réttlætt með öðrum markmiðum. Horft er á manneskjur sem einber tæki og brotin er sú grundvallar regla að hver manneskja – og já að hvert barn á sinn lífsrétt fyrir það eitt að vera barn. Ekkert annað.

***

Ég nefndi áðan að oft birtast fegurstu hliðar mannlífsins þegar erfiðleikar steðja að. Þetta höfum við séð aftur og aftur á síðustu misserum og árum á Íslandi þegar samborgarar hafa þurft að takast á við ótrúlegar kringumstæður vegna náttúruhamfara af ýmsum toga. Þá birtist það góða sem í okkur býr, hjálpsemi, samhygð og fórnfýsi. Við þekkjum það líka hvað sorg og missir getur kallað fram mikla fegurð í samskiptum fólks og djúpa og sanna samkennd.

Þarna er aflið sem við þurfum að virkja. Það er vitaskuld óþolandi með öllu þegar erfiðleikarnir eru af mannavöldum, sem ætti að vera hægt að afstýra og koma í veg fyrir. Breytir því samt ekki að þarna er aflið sem við þurfum að virkja.

Einar Bragi skáld spurði hvort frelsarinn hafi yfirgefið okkur, hvort fagnaðarerindið sé hjóm eitt. Það er eðlilegt að líða þannig þegar réttlát reiðin nær á okkur heljartökum. En kærleikurinn er þarna líka og hann býr í okkur öllum. Meira að segja orðljótasta nettröllið í kommentakerfunum er víst til að rjúka upp á heiði um hávetur með startkapla til að aðstoða fólk sem hann þekkir kannski ekki neitt. Hann vill vel, hann hefur líka góðan vilja þrátt fyrir allt.

Við vitum að síðustu stríðin í heiminum eru ekki þau sem nú standa yfir. Draumurinn um frið er skýr en ólíklegur til að rætast. Fen óréttlætis og illra gjörða virðist botnlaust og við vitum af hverju - en það þýðir ekki að við eigum að leggja árar í bát. Þvert á móti. Ræktum heldur kærleikann í okkur sjálfum og í samfélaginu í kringum okkur. Þar trúi ég einlæglega að almættið standi með okkur – og muni ekki yfirgefa okkur.

Ég trúi þess vegna líka að kirkjan geti verið einn mikilvægur akur þess ræktunarstarfs. Jú, satt er að kirkjur voru og eru sumstaðar enn hluti valdakerfis – og fólk í trúnaðarhlutverkum hefur oft beitt miklum rangindum. Kirkja er samfélag sem verður ekki betra en einstaklingarnir sem skapa það. En hún er þegar best lætur félag um það fegursta í okkur, um kærleika og mildi, um þá hugsjón að við öll sem byggjum jörðina séum bræður og systur. Sem er svo stór hugsjón að hugsun okkar nær vart utan um hana.

En ef við viljum rækta hið góða og halda kærleikanum á lofti þá er ekki verra að hafa um það félag. Félag sem færir okkur jafnframt vettvang fyrir stærstu stundir lífsins, í gleði og sorg og stendur með okkur þegar við höfum talið alla okkar daga. Kirkjan vill vera slíkt félag.

***

Jóhannes úr Kötlum orti líka um fjárhirðana í Betlehem og segir í niðurlagi kvæðisins Smalavísur:

Öll heimssyndin brann þeim í blóði
- en bráðum fékk engillinn góði
þó talið þeim trú um hið rétta
í tákni vors lífs - sum sé þetta:
Því meira sem myrkið oss kremur
Því máttugra er ljósið sem kemur.

Góðu kirkjugestir ég óska ykkur aftur gleðilegs nýs árs. Ég bið þess að það megi færa ykkur gleði og farsæld – og okkur öllum meiri frið í heiminum og að jarðarbörn megi friðar njóta og anda rótt.