Ný sóknaráætlun – skráning í vinnustofu
Opnað hefur verið fyrir skráningu fyrir fólk sem hefur áhuga á að taka þátt í mótun nýrrar Sóknaráætlunar Norðurlands eystra. Núgildandi áætlun gildir út árið 2024 og er vinna hafin við gerð nýrrar sóknaráætlunar sem ætlunin er að taki gildi um áramótin. Sóknaráætlanir landshluta eru stefnumótandi áætlanir. Í þeim sameinast heimamenn um framtíðarsýn, markmið, forgangsröðun verkefna og leiðir til að áætlunin nái fram að ganga.
Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi eystra stendur að 13 vinnustofum sem haldnar eru víðsvegar um landshlutann í ágúst og september þar sem unnið er að gerð nýrrar sóknarátælunar í samráði við íbúana.
Vinnustofa verður haldin í Brekkuskóla á Akureyri þriðjudaginn 10. september kl. 16-18. Þar verður fjallað um þrjá málaflokka fyrir Sóknaráætlun Norðurlands eystra 2025-2030, atvinnulíf, blómlegar byggðir og umhverfismál. Safnað verður saman verkefnahugmyndum fyrir næstu fimm ár.
Almenningi gefst kostur á að taka þátt í vinnustofunum og skrá sig hér - eða ef fólk kemst ekki á áðurnefnda vinnustofu má deila hugmyndum hér.
Núgildandi og fyrri sóknaráætlanir má finna á vef SSNI - sjá hér.