Nú hefur verið kátt í Höllinni í fjóra áratugi
Á mánudag voru 40 ár síðan Íþróttahöllin á Akureyri var tekin í notkun. Það var sunnudaginn 5. desember 1982 að fólki var fyrst boðið að stíga þar inn fyrir dyr og skoða þann hluta hússins sem var tilbúinn, sýndir voru fimleikar og kappleikir fóru fram í handbolta og blaki. Þarna var sem sagt haldið af stað en Höllin var reyndar ekki formlega vígð fyrr en síðar.
Í húsinu hefur frá upphafi verið fjölbreytt starfsemi og íþróttir þar að sjálfsögðu áberandi; kennsla á vegum skóla, æfingar á vegum félaga og kappleikir, þar hafa einnig farið fram útskriftir, sýningar, veislur og aðrir viðburðir.
Fjallað er um tímamótin á vef Akureyrarbæjar. Þar segir:
Í dag eru Brekkuskóli, Menntaskólinn á Akureyri og Verkmenntaskólinn á Akureyri með íþróttakennslu í Íþróttahöllinni. Þá eru íþróttafélög með æfingar og leiki þar; Íþróttafélagið Þór með handbolta og körfubolta, Knattspyrnufélag Akureyrar með handbolta og blak og Ungmennafélag Akureyrar með frjálsar íþróttir. Almenningstímar eru leigðir út eftir að skipulögðum íþróttaæfingum félaganna lýkur virka daga.
Í kjallara Íþróttahallarinnar er Golfklúbbur Akureyrar með vetraraðstöðu, Skotfélag Akureyrar með skotaðstöðu sem Bogfimideild Akurs nýtir sér einnig.
Í Íþróttahöllinni eru skrifstofur íþróttadeildar Akureyrarbæjar, Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA), Íþrótta- og ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og Skíðasambands Íslands (SKÍ). Félagsmiðstöðvar Akureyrarbæjar (FÉLAK) eru einnig með skrifstofur og starfsemi í rýmum Íþróttahallarinnar sem og Skákfélag Akureyrar.
Úrklippa úr Morgunblaðinu fyrir 40 árum, 30. desember 1982.