Fara í efni
Fréttir

Notum féð sem best til að stytta biðlistana

Sjúkrahúsið á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Barna- og unglingageðteymi Sjúkrahússins á Akureyri (BUG) fær 13 milljónir króna til að efla þjónustuna tímabundið. Heilbrigðisráðherra tilkynnti þetta á mánudaginn, eins og Akureyri.net greindi þá frá. Um er að ræða átaksverkefni til að stytta bið barna og unglinga eftir greiningu og meðferð.

„Að fá fjármagn til að geta aukið geðheilbrigðisþjónustu við börn á svæðinu hefur að sjálfsögðu mikla þýðingu fyrir okkur,“ segir Alice Harpa Björgvinsdóttir, framkvæmdastjóri lyflækningasviðs Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) við Akureyri.net. „Það segir sig sjálft að allt er betra en ekkert!“

Alice Harpa, sem er sérfræðingur í klínískri sálfræði, segir að umræddan málaflokk vilji og þurfi SAk að efla enn meira á komandi árum. „Þetta fjármagn er áfangi á þeirri leið. BUG teymið er lítið og þyrfti að stækka og von okkar er að það verði áfram hugað að þessum málaflokki og að það verði sameiginlegt markmið okkar landsmanna að börn þurfi ávallt að bíða sem styst eftir þjónustu.“

Áætlaður kostnaður við geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga á SAk er um 41 milljón króna á ári. „Þessar 13 milljónir króna eru einskiptis greiðsla sem þýðir að við þurfum í raun að ráða inn tímabundið í teymið, sem er kannski síður ákjósanlegt. Best ef þetta væri föst fjárhæð sem þýðir þá meiri stöðugleika og að hægt sé að fastráða. Talsvert auðveldara er að fá inn mannskap ef um langtíma ráðningu er að ræða,“ segir Alice Harpa aðspurð. Hún segir SAk eiga að geta fengið peningana strax og upphæðin ætti að duga til að ræða í 100% stöðugildi í eitt til eitt og hálft ár. „Við munum nota þessa upphæð sem best til að reyna að stytta biðlistana hjá okkur, sem eru í dag um 6 mánuðir og hafa verið að lengjast.“