Norlandair bauð lægra en Mýflug í sjúkraflug
Norlandair býðst til að sjá um sjúkraflug á öllu landinu næstu ár fyrir 775 milljónir króna á ári en Mýflug, sem séð hefur um sjúkraflug hérlendis í mörg ár, bauð 889 milljónir í verkið. Kostnaðaráætlun Ríkiskaupa var tæpar 858 milljónir.
Tilboð voru opnuð á föstudaginn var. Samið verður til þriggja ára með möguleika á framlengingu í tvö ár, eitt ár í senn.
Tvö tilboð bárust og varla mátti búast við öðru því það skilyrði er sett að viðkomandi flugfélag sé staðsett á Akureyri. Samið verður frá næstu áramótum.
- Kostnaðaráætlun Ríkisskaupa var 857.824.495
- Tilboð Norlandair var 775.470.929
- Tilboð Mýflugs 889.110.000
„Opnunarskýrsla felur ekki í sér niðurstöðu útboðs. Í opnunarskýrslu er einungis birt heildartilboðsfjárhæð en endanlegt val getur ráðist af fleiri valforsendum skv. útboðsgögnum,“ segir í tilkynningu Ríkiskaupa. „Framsetning opnunarskýrslu er með fyrirvara um hugsanlega reiknivillu og að ekki er búið að meta gildi tilboða. Komi í ljós að fjárhæðir í opnunarskýrslu eru ekki réttar miðað við framsetningu tilboðsblaðs og leiðbeiningar um útfyllingu á því, verður leiðrétt opnunarskýrsla birt eins fljótt og unnt er.“
Síðast þegar sjúkraflug var boðið út buðu sömu tvö fyrirtæki í verkið og þá hafði Mýflug betur.