Fara í efni
Fréttir

Norðurorka hækkar verð umfram vísitölu

Hluti verðskrár Norðurorku hækkar umfram vísitölu á næsta ári, vegna kostnaðarsamra framkvæmda, skv. heimildum Akureyri.net.  Gert er ráð fyrir að rekstrarkostnaður félagsins vaxi að jafnaði um reiknaða vísitöluhækkun sem er 3,2% en hitaveita hækkar um 4,5%, vatnsveita um 2,5%, rafveita um 3,2% en fráveitan um 11%. Þetta var samþykkt í stjórn Norðurorku á mánudaginn.

Rökin fyrir hækkun hitaveitu umfram reiknaða vísitölu er sú gríðarstóra framkvæmd að sækja aukið jarðhitavatn og auka flutningsgetu aðveitulagnarinnar frá Hjalteyri. Áfanga þrjú af fimm í því verkefni er að ljúka. Heildarkostnaður er áætlaður um 2,5 til 2,7 milljarðar og ljóst að verðskrá hitaveitunnar mun áfram litast af framkvæmdinni, en með henni er verið að svara þörf samfélagsins fyrir heitt vatn næstu 15 til 20 árin. Sjálf aðveitulögnin er framkvæmd sem mun duga til áratuga.

Vatnsveita hækkar minna en vísitalan vegna þess að í augnablikinu eru ekki stórar framkvæmdir í gangi varðandi  kalt vatn og framlegð talin viðunandi. Stór verkefni eru þó framundan á næstu árum, m.a. tenging vatnsbóla úr Vaðlaheiðargöngum við veitukerfið á Akureyri.

Verð rafveitu hækkar um 3,2% eða til samræmis við reiknaða vísitölu. Leyfileg arðsemi rafveitunnar er ákvarðaður af Orkustofnun og er veitan vel innan leyfilegra marka. 

Dælustöðin kostar milljarð

Verðskrá fráveitu hækkar um 11% sem fyrr segir. Rökin fyrir svo mikilli hækkun umfram reiknaða vísitölu er bygging og rekstur fráveituhreinsistöðvar í Sandgerðisbót, sem sagt er frá annars staðar hér á vefnum í dag. Rekstrarkostnaður stöðvarinnar er áætlaður um 35 til 40 milljónir króna árlega, sem svarar til um 7% af verðhækkuninni. Byggingarkostnaður er áætlaður um einn milljarður króna svo ljóst er að verðskrárbreytingin ein og sér dugar ekki til að greiða niður framkvæmdina innan viðunandi tíma. Verðskrá fráveitunnar mun því að óbreyttu taka mið af þessari stóru framkvæmd áfram.

Með tilliti til þessara verðbreytinga á næsta ári eru rekstrartekjur móðurfélagsins áætlaðar tæpir 3,5 milljarðar og til fjárfestinga er áætlað að verja milljarði króna.