Fara í efni
Fréttir

Norðurlandsmiðstöð verður á Akureyri

Ný stórverslun Húsasmiðjunnar við Freyjunes á Akureyri sem verður opnuð á fyrri hluta næsta árs.

Verslunum Húsasmiðjunnar á Dalvík og Húsavík verður lokað um næstu áramót og reksturinn í kjölfarið sameinaður í nýrri verslunar- og þjónustumiðstöð Húsasmiðjunnar fyrir Norðurland, á Akureyri, segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Haft er eftir forstjóra Húsasmiðjunnar að ákvörðun um að loka á Dalvík og Húsavík sé þungbær. Í tilkynningunni segir að þrátt fyrir velvilja bæði heimamanna og fyrirtækisins hafi rekstrargrundvöllur reynst þungur.

Boðin störf á Akureyri

„Um næstu áramót verður verslunum Húsasmiðjunnar á Dalvík og Húsavík lokað. Rekstur þeirra verður í framhaldinu sameinaður í einni glæsilegustu byggingavöruverslun landsins og þjónustumiðstöð Húsasmiðjunnar fyrir Norðurland. Verslunin verður opnuð við Freyjunes á Akureyri á fyrri hluta næsta árs. Öllum fastráðnum starfsmönnum á Húsavík og Dalvík verður boðið að starfa áfram í nýju versluninni,“ segir í tilkynningu fyrirtækisins. 

„Forsvarsmenn og eigendur Húsasmiðjunnar eru meðvitaðir um mikilvægi þess fyrir smærri og dreifðari byggðir landsins að hafa aðgang að góðri þjónustu í heimabyggð, enda hefur það verið stefna fyrirtækisins um árabil að þjóna smærri byggðum og sýna samfélagslega ábyrgð í verki.

Rekstrargrundvöllur Húsasmiðjunnar á Dalvík og Húsavík hefur hins vegar reynst þungur undanfarin ár þrátt fyrir veljvilja bæði heimamanna og fyrirtækisins. Hörð samkeppni, aukin vefverslun og fleiri breytingar á markaði hafa gert það að verkum að rekstur byggingarvöruverslana og timbursölu á sér ekki grundvöll á þessum stöðum.“

Þungbær ákvörðun

„Við hjá Húsasmiðjunni höfum átt mjög gott samband við viðskiptavini okkar á Húsavík og Dalvík um árabil og er þessi ákvörðun, okkur þungbær. Við munum þrátt fyrir þessa breytingu kappkosta að þjónusta viðskiptavini á Norðurlandi vel, þar á meðal á Dalvík og Húsavík. Jafnframt mun söluskrifstofa verða opnuð á Húsavík í upphafi næsta árs með ráðgjöf fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki,“ segir Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar.

Styrkja vefverslun

„Húsasmiðjan hefur aukið úrval og þjónustu í vefverslun Húsasmiðjunnar og vöxtur hennar margfaldast á stuttum tíma. Fyrir liggur að styrkja vefverslun félagsins enn frekar með auknu vöruúrvali og þjónustu á næstu misserum sem nýtist öllum landsmönnum,“ í tilkynningu Húsasmiðjunnar.

„Að lokum þakkar Húsasmiðjan bæði Dalvíkingum og Húsvíkingum fyrir velvild og viðskipti í gegnum árin. Jafnframt bjóðum við viðskiptavini okkar þar sérstaklega velkomna í nýju verslunina við Freyjunes á Akureyri, þegar hún tekur til starfa með auknu vöruúrvali og enn betri þjónustu.“