Norðurland kynnt í sendiráðinu í London
Áfangastaðurinn Norðurland var kynntur á fjölmennum viðburði í sendiráði Íslands í London í siðustu viku, en þangað komu bæði fulltrúar frá breskum ferðaskrifstofum og fjölmiðlum. Þar var þjónusta og afþreying á Norðurlandi kynnt. Þetta kemur fram á vef Markaðsstofu Norðurlands.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra var á viðburðinum og átti hún einnig fund með fulltrúum easyJet þar sem rætt var um nýju flugleiðina til Akureyrar og tækifærin sem henni fylgja.
Á fundinum og kynningarviðburðinum voru einnig Arnheiður Jóhannsdóttir og Halldór Óli Kjartansson frá Markaðsstofu Norðurlands auk fulltrúa frá Íslandsstofu. Dagskráin var skipulögð í samstarfi við Markaðsstofu Norðurlands, Íslandsstofu og sendiráð Íslands í London.
Í tilkynningu frá Menningar- og viðskiptaráðuneytinu segir að ráðherra hafi hvatt fulltrúa easyJet til að halda áfram þróun á flugi til landsbyggðarinnar, en í síðustu viku var undirritaður samningur um áframhaldandi stuðning við uppbyggingu alþjóðaflugs um Akureyri og Egilsstaði.
„Beint millilandaflug til Akureyrar breytir miklu fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi, sér í lagi utan háannar. Það skapar tækifæri til að nýta innviði í ferðaþjónustu lengur og betur, og er liður að því að efla ferðaþjónustuna sem heilsársatvinnugrein á svæðinu. Við munum halda áfram að styðja við uppbyggingu millilandaflugs til landsbyggðarinnar, en það er skilvirkasta leiðin til að dreifa ferðamönnum um landið,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands á kynningarfundinum í London.