Fara í efni
Fréttir

Norðurhjálp opnuð aftur í dag við Óseyri

Sæunn í góðum hópi af sjálfboðaliðum Norðurhjálpar, en á myndinni er aðeins hluti þeirra sem starfa fyrir markaðinn. Mynd: RH

Nytjamarkaður Norðurhjálpar verður opnaður aftur á nýjum stað í dag kl. 13.00. Eftir að missa húsnæði markaðsins við Dalsbraut í lok febrúar, og þónokkra leit eftir nýjum stað, verður opnað aftur með pompi og prakt að Óseyri 18 í dag. „Við hlökkum mikið til að opna aftur og erum hæstánægð með nýja húsnæðið. Hér er bjart og hlýtt og nóg pláss, og bjóðum upp á kaffi og léttar veitingar í dag,“ segir Sæunn Ísfeld Guðmundsdóttir, ein af stofnendum Norðurhjálpar.

Fjöldinn allur af sjálfboðaliðum hefur starfað hjá Norðurhjálp, en Sæunn segir að það sé alltaf að bætast við. „Við höfum verið svo mörg hérna að undirbúa opnunina og það er svo gaman hjá okkur. Langflestir af sjálfboðaliðunum okkar eru öryrkjar eða eldri borgarar, en sá elsti er 86 ára, Kristinn Arnþórsson, en hann er bókasérfræðingurinn okkar. Við erum bara eins og fjölskylda og ég held að hlýjan sem einkennir hópinn skili sér til viðskiptavinanna,“ segir Sæunn.  

 

Séð yfir nýja húsnæðið, en sjálfboðaliðarnir voru langt komin með að gera allt klárt fyrir opnun, þegar blaðamaður leit við seinnipartinn í gær. Mynd: RH

„Við erum með bestu sjálfboðaliðana og bestu viðskiptavinina, og svo er ég alveg orðlaus yfir velviljanum í samfélaginu, en hvert sem við komum er fólk tilbúið að hjálpa,“ segir Sæunn. „Það hvetur okkur áfram.“ Húsnæðið að Óseyri 18 hefur þjónað ýmsu hlutverki í gegnum tíðina, en Sæunn segir að hér hafi verið bátasmiðja, vélaverkstæði, bílasala og síðast var steypustöð starfrækt í húsnæðinu. Einnig var bókamarkaður í húsinu fyrir síðustu jól. 

Norðurhjálp mun halda áfram sömu starfsemi, að taka við og endurselja allskyns hluti og nýta ágóðann til þess að styðja við bakið á þeim sem á því þurfa að halda á svæðinu. Sæunn segir að það muni taka kannski 2 mánuði að standa undir kostnaði þess að flytja og leigan sé ívið hærri á nýja staðnum.