Fara í efni
Fréttir

Norðan hvassviðri, kalt og snjór til fjalla

Myndir: Þorgeir Baldursson

Leiðindaveður hrellir Akureyringa og aðra Norðlendinga í dag eins og jafnan þegar blessaðar haustlægðirnar reka inn nefið. Sú sem nú gerir vart við sig býður upp á norðan rok, rigningu eða slyddu innan bæjarmarkanna og snjókomu til fjalla. 

Þorgeir Baldursson var á ferðinni í morgun með myndavélina og færir lesendum hér nokkur sýnishorn.

Hlíðarfjall klæddist þunnum snjóhvítum vetrarklæðum í nótt og Vaðlaheiði sömuleiðis, en hvorki er þó tímabært að sækja skíðin í geymsluna né nagladekkin, þótt líklega styttist í að skynsamlegt verði að huga að dekkjaskiptum. Þeir sem aka á negladekkjum yfir vetrartímann verða reyndar að hafa í huga að þau má ekki setja undir ökutækið fyrr en 1. nóvember nema aðstæður beinlínis krefjist þess, eins og stundum er tekið til orða þegar sveigja þarf reglurnar.

Í morgun hefur norðanáttin mælst 10 metrar á sekúndu eða ríflega það á Akureyri og hitamælar sýna fáeinar gráður fyrir ofan núllið. Gul viðvörun er í gildi til klukkan þrjú síðdegis í dag en eftir það ætti veðrið að skána.

Vetrarferð er hér og þar um Norður- og Norðausturland. Á vef Vegagerðarinnar segir meðal annars:

  • Snjóþekja og éljagangur er á Vatnsskarði, þar er vetrarfærð og ekki fyrir eindrifsbíla á sumardekkjum.
  • Snjóþekja og krapi er á Þverárfjalli. Snjóþekja er á norðanverðum Kili og Lágheiði er ófær.
  • Snjóþekja og krapi er á Dettifossvegi.
  • Þungfært er á Hólsfjallavegi og í Möðrudal.
  • Þæfingsfærð er á Hellisheiði eystri. Klæðning hefur fokið af hluta Hringvegarins við Jökulsá á Fjöllum og á Biskupshálsi. Vegfarendur eru hvattir til að sýna aðgát.