Neyðarsöfnun vegna jarðskjálftanna
Hjálparstarf kirkjunnar hefur hafið neyðarsöfnun vegna mannskæðs jarðskjálfta sem varð á landamærum Tyrklands og Sýrlands aðfaranótt mánudags. „Þegar er ljóst að þúsundir hafa farist og tugþúsundir eiga um sárt að binda. Hamfarirnar eru af þeirri stærðargráðu að alþjóðleg neyðaraðstoð er aðkallandi. Tugir ríkja hafa þegar boðið fram aðstoð sína og hjálpargögn eru tekin að berast til hamfarasvæðanna,“ segir í tilkynningu frá Hjálparstarfi kirkjunnar.
„Hjálparstarfið mun leggja til að lágmarki ellefu milljónir króna sem systurstofnanir Hjálparstarfsins innan Alþjóðlegs hjálparstarfs kirkna – ACT Alliance – munu ráðstafa þar sem neyðin er sárust. Kirkens Nødhjelp, systurstofnun Hjálparstarfsins í Noregi, hefur t.d. starfað í Sýrlandi um langt árabil og gat brugðist tafarlaust við. Sama á við um systurstofnanir Hjálparstarfsins í nágrannaríkjum Tyrklands og Sýrlands sem hófu dreifingu hjálpargagna aðeins fáum klukkustundum eftir að fyrstu jarðskjálftarnir riðu yfir.“
Fyrstu fréttir staðfesta nú þegar að þúsundir hafa farist og tugþúsundir eru sár. Alþjóða heilbrigðisstofnunin telur þó að mun fleiri hafa látist beggja vegna landamæranna í Tyrklandi og Sýrlandi. „Til að bæta gráu ofan á svart ríkir vetur á hamfarasvæðunum. Neyðin er því mikil og þörfin fyrir aðstoð afar aðkallandi frá öllum sem hana geta veitt,“ segir í tilkynningunni.
„Borgarastríðið í Sýrlandi, sem hefur staðið í tólf ár, gerir landið sérstaklega viðkvæmt fyrir áföllum. Vegna stríðsins er talið að um tólf milljónir manna séu í bráðri þörf fyrir mannúðaraðstoð. Yfir sex milljónir manna eru á vergangi innan landamæra Sýrlands og lítið færri eru sýrlenskir flóttamenn í nágrannaríkjum; Líbanon, Jórdaníu og á hamfarasvæðunum við landamærin í Tyrklandi.“
Hægt er að leggja starfinu lið með eftirfarandi hætti:
- Gefa stakt framlag á vefsíðunni: https://www.styrkja.is/ney%C3%B0arsofnun-hjalparstarfs-kirkjunnar-syrland-jar%C3%B0skjalftar
- Leggja inn á söfnunarreikning númer 0334-26-886; kennitala: 450670-0499
- Gefa stakt framlag á vefsíðu: https://www.hjalparstarfkirkjunnar.is/
- Hringja í söfnunarsímann 907 2003 (2500 krónur)
- Gefa framlag með Aur í númer 123-5284400