Fara í efni
Fréttir

Nemendum boðið í sund og á skíði

Akureyrarbær býður grunn- og framhaldsskólanemum á Akureyri í sund og á skíði í vetrarfríi grunnskólanna í vikunni. Auk þess er frítt fyrir alla í sund á morgun,  miðvikudag, í tengslum við G-vítamín á þorra, sem Geðhjálp stendur fyrir.

Á morgun, miðvikudag, og á fimmtudaginn, 18. febrúar, geta grunn- og framhaldsskólanemar farið í skíðalyfturnar í Hlíðarfjalli og í sundlaugar Akureyrar án endurgjalds. Grunnskólanemendur gefa upp kennitölu og nafn skóla í afgreiðslu og framhaldsskólanemar í VMA og MA framvísa nemendaskírteinum.

Akureyrarbær vekur athygli á að krakkarnir þurfa að eiga rafrænt kort eða kaupa slíkt á 1.000 krónur í skíðalyfturnar. Kortin fást í afgreiðslu Hlíðarfjalls og á N1.

„Mikilvægt er að kynna sér aðgengi að Hlíðarfjalli m.t.t. sóttvarnareglna áður en fjallið er heimsótt. Allar helstu upplýsingar eru á heimasíðu Hlíðarfjalls,“ segir í tilkynningu.

Fáðu þér G-vítamín!

Geðhjálp býður upp á 30 skammta af G-vítamíni á þorra, ráðleggingar sem er ætlað að bæta geðheilsu, og á morgun, miðvikudaginn 17. febrúar er boðið upp á aukaskammtinn Hreyfðu þig daglega. Þar af leiðandi bjóða nokkur sveitarfélög, Akureyrarbær þar á meðal, öllum frítt í sund á morgun.